Ók á mann og stakk af

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns vegna rannsóknar á umferðarslysi í Hafnarstræti í Reykjavík um þar síðustu helgi. Laugardaginn 8. febrúar á milli kl. 23 og 23.30 var hvítum jeppa, líklegast eldri árgerð af Nissan Patrol, ekið á karl á þrítugsaldri, sem var á hjólabretti í Hafnarstræti, á milli Pósthússtrætis og Ingólfstorgs. Ökumaðurinn kannaði ekki með ástand mannsins heldur fór af vettvangi. Sá síðarnefndi leitaði í kjölfarið á slysadeild, en maðurinn slasaðist nokkuð.

Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.

Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að  hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert