„Tillaga sem felur í sér skýr svör“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Með þessar tillögu eru komin skýr svör,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata um ákvörðun stjórnarflokkanna að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún segist ekki eiga von á að Píratar styðji tillöguna. Leggja hefði átt málið undir þjóðina.

Birgitta gagnrýnir málsmeðferð stjórnarflokkanna. Sú spurning vakni hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft nægilegt samráð við grasrótina í flokknum.

Birgitta sagðist hafa viljað að það yrði haft samráð við þjóðina um þessa ákvörðun. „Sjálfstæðisflokkurinn lofaði sínum kjósendum að leggja þetta í dóm þjóðarinnar. Mér finnst eðlilegt að það komi fram tillaga um að það verði gert.“

Birgitta sagðist hafa rætt um það við stjórnarandstöðuna að leggja fram slíka tillögu á þingi með það að markmiði að slík atkvæðagreiðsla færi fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Hinir flokkarnir hafi viljað bíða eftir skýrslu Hagfræðistofnunar og nú sé tíminn til að leggja fram slíka tillögu að renna út.

Birgitta sagðist styðja þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu máli, en vandamálið væri hins vegar að flokkarnir hefðu sýnt það að þeir tækju ekki alltaf mark á þjóðaratkvæðagreiðslum eins og gerðist þegar atkvæði voru greidd um nýja stjórnarskrá.

mbl.is