Tekist á um frávísun og vanhæfi

Frá mótmælum Hraunavina í haust.
Frá mótmælum Hraunavina í haust. mbl.is/Eggert

Verjendur níu Hraunavina sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært fyrir brot á lögreglulögum vegna mótmæla í Garðahrauni í október sl. kröfðust þess í morgun að málinu yrði vísað frá. Auk þess kröfðust þeir þess að saksóknarinn yrði látinn víkja sökum vanhæfis.

Fyrirtaka fór fram í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Skúli Bjarnason, lögmaður fjögurra Hraunavina, segir í samtali við mbl.is að aðalkrafa sakborninga sé að fá málinu vísað frá og var sú krafa lögð fram í dag.

„Það er aðalkrafan. Það er auðvitað vegna þess - eins og komið hefur fram áður - að lögreglustjóri getur ekki farið með saksókn í máli sem tengist honum svona mikið,“ segir Skúli. Til vara er krafist sýknu af kröfu ákæruvaldsins.

Hann bendir á að nímenningarnir séu ákærðir fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. „Það er ekki ákært út af neinu öðru,“ bætir hann við.

Vilja að saksóknari gefi skýrslu fyrir dómi

Þá krefjast verjendurnir þess að saksóknarinn Karl Ingi Vilbergsson verði látinn víkja.

„Það er með tilvísun í sakamálalögin. Það er gerð krafa líka um að það verði tekin af honum vitnaskýrsla af því að hann var nú þarna, að minnsta kosti býsna víða í þessu ferli getum við sagt,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.

Gerð er krafa um að tekin verði af honum vitnaskýrsla vegna margháttaðrar aðkomu hans að málinu, á vettvangi, við handtökur, fangelsun og útgáfu ákæru, að því er segir í greinargerð verjenda.

„Það er almenn regla að það getur ekki farið saman að fara með saksókn og gefa líka vitnaskýrslu,“ segir Skúli ennfremur.

Ákveðið var í héraðsdómi í morgun að málflutningur um frávísunarkröfuna og vanhæfi saksóknara fari fram 24. mars nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert