Íslendingar í réttarsal í Danmörku

E-töflur og kókaín er á meðal þeirra efna sem lögreglan …
E-töflur og kókaín er á meðal þeirra efna sem lögreglan í Kaupmannahöfn lagði hald á í tengslum við rannsóknina. mynd/lögreglan í Kaupmannahöfn

Aðalmeðferð í máli þriggja Íslendinga og eins Pólverja sem eru sakaðir um stórfellt fíknefnasmygl og brot gegn almennun hegningarlögum hófst í morgun í undirrétti í Kaupmannahöfn. Stefnt er að því að ljúka aðalmeðferðinni 3. apríl nk.

Skýrslur verða teknar af mönnunum í dag.

Mennirnir voru handteknir í árslok 2012 í tengslum við rannsókn lögreglunnar í Kaupmannahöfn í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Mennirnir voru í nóvember sl. ákærðir fyrir að hafa ætlað að smygla til Íslands kókaíni sem stóð til að selja. Þá fundust rúm 11 kíló af e-töflum í íbúð eins Íslendingsins í Kaupmannahöfn, en einnig stóð til að selja töflurnar að sögn ákæruvaldsins.

Fjórmenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi í tæpt eitt og hálft ár.

Að lokinni aðalmeðferð í dag verður málið næst tekið fyrir 5. mars nk. 

mbl.is