Milduðu dóminn

Frá Prag höfuðborg Tékklands.
Frá Prag höfuðborg Tékklands. Ljósmynd/che

Áfrýjunardómstóll í Tékklandi hefur mildað dóm yfir tveimur íslenskum konum sem sakfelldar voru fyrir að smygla rúmum þremur kílóum af hreinu kókaíni til landsins. Þær voru teknar með kókaínið á alþjóðaflugvellinum í Prag. Í stað sjö og sjö og hálfs árs fangelsis voru þær dæmdar í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru handteknar á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag, höfuðborg Tékklands, hinn 7. nóvember 2012 eftir að kókaín fannst í fórum þeirra. Þær komu til landsins frá Sao Paulo í Brasilíu, en millilentu í München í Þýskalandi.

Kókaínið, sem var um 89% sterkt, var vandlega falið inni í fóðri tösku og kom fram í fyrstu fréttum að handtakan væri afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda. Málið hefur einnig verið unnið með íslenskum og dönskum lögregluyfirvöldum.

Stúlkurnar þurfa að afplána tvo þriðju hluta dómsins.

mbl.is