Milduðu dóminn

Frá Prag höfuðborg Tékklands.
Frá Prag höfuðborg Tékklands. Ljósmynd/che

Áfrýjunardómstóll í Tékklandi hefur mildað dóm yfir tveimur íslenskum konum sem sakfelldar voru fyrir að smygla rúmum þremur kílóum af hreinu kókaíni til landsins. Þær voru teknar með kókaínið á alþjóðaflugvellinum í Prag. Í stað sjö og sjö og hálfs árs fangelsis voru þær dæmdar í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru handteknar á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag, höfuðborg Tékklands, hinn 7. nóvember 2012 eftir að kókaín fannst í fórum þeirra. Þær komu til landsins frá Sao Paulo í Brasilíu, en millilentu í München í Þýskalandi.

Kókaínið, sem var um 89% sterkt, var vandlega falið inni í fóðri tösku og kom fram í fyrstu fréttum að handtakan væri afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda. Málið hefur einnig verið unnið með íslenskum og dönskum lögregluyfirvöldum.

Stúlkurnar þurfa að afplána tvo þriðju hluta dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert