Vill skýringu á fullyrðingu

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur sent erindi til forsætinefndar Alþingis í kjölfar umræðu um fundarstjórn forseta þingsins í dag þar sem tekist var á um það hvort þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið væri þingtæk. Þar segir:

„Undirrituð fer þess á leit við forsætisnefnd að hún fari fram á skýringu ríkisstjórnar á eftirfarandi fullyrðingu í greinargerð með ofangreindri þingsályktun: „Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.““

Katrín segir alvarlegt að í textanum sé „ríkisstjórnin að fullyrða að einhverjir þingmenn hafi ekki greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni og þar með brotið stjórnarskrá. Undirrituð tók þátt í þessari atkvæðagreiðslu og var hluti stjórnarmeirihlutans á þessum tíma. Ég vil í ljósi þess fara fram á það að forsætisnefnd kalli eftir upplýsingum þeim sem liggja til grundvallar ofangreindri fullyrðingu og gefi þinginu yfirlýsingu að athugun lokinni á því hvort og þá hverjir ekki greiddu atkvæði sannfæringu sinni samkvæmt. Þangað til liggja allir þingmenn sem þátt tóku í umræddri atkvæðagreiðslu undir ávirðingum um stjórnarskrárbrot, þar á meðal undirrituð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina