Vilja nýja áburðarverksmiðju

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram á Alþingi af átta þingmönnum Framsóknarflokksins þess efnis að ríkisstjórninni verði falið að kanna hagkvæmni þess og möguleika að reisa áburðarverksmiðju í Helguvík eða í Þorlákshöfn. Fyrsti flutningsmaður er Þorsteinn Sæmundsson en meðflutningsmenn eru Vigdís Hauksdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir og Frosti Sigurjónsson.

Bent er á það í greinargerð að heimsmarkaðsverð á áburði hafi hækkað umtalsvert, einkum vegna aukinna áburðarkaupa Kínverja og Indverja. Þá sé ljóst að áburðarverð mun að öllum líkindum haldast hátt í nánustu framtíð vegna aukinnar ræktunar matvæla. Ennfremur er bent á að rekstur áburðarverksmiðju byggist einkum á tveimur forsendum, annars vegar nægu rafmagni og hins vegar miklu magni vatns. Einnig þurfi að vera til staðar góð hafnaraðstaða sem þjónað geti stórum fragtskipum. Auðvelt sé að uppfylla þau skilyrði bæði í Helguvík og Þorlákshöfn.

„Hópur áhugamanna um byggingu áburðarverksmiðju hefur unnið frumáætlun um byggingu verksmiðju sem framleiða mundi 700 þúsund tonn af áburði og 700 þúsund tonn af kalsíumklóríði. Gert er ráð fyrir að 5–600 manns komi að byggingu verksmiðjunnar en að áburðarverksmiðjan skapi 150–200 hálaunuð framtíðarstörf, auk afleiddra starfa. Fjárfesting í verksmiðjunni mun nema rúmum 120 milljörðum kr. samkvæmt áætlunum. Áhugahópurinn kynnti verkefnið fyrir þáverandi stjórnvöldum fyrir u.þ.b. tveimur árum en fékk ekki hljómgrunn,“ segir sömuleiðis.

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert