Matthías Bjarnason látinn

Matthías Bjarnason.
Matthías Bjarnason.

Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, er látinn, 92 ára að aldri. Matthías lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í morgun. Hann var þingmaður Vestfjarða fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1963-1995.

Matthías var fæddur á Ísafirði 15. ágúst árið 1921. Foreldrar hans voru Bjarni Bjarnason (f. 17. maí 1881, d. 6. jan. 1960) sjómaður þar, síðar vegaverkstjóri, og Auður Jóhannesdóttir (f. 26. apríl 1882, d. 28. des. 1968) húsmóðir. Eiginkona Matthíasar var Kristín Ingimundardóttir húsmóðir (f. 4. maí 1924, d. 11. júní 2003). Börn þeirra eru Auður, fædd 1945, og Hinrik, fæddur  1946.

Matthías lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði árið 1937 og verslunarprófo frá Verslunarskóla Íslands árið 1939.

Hann var þingmaður Vestfjarða á árunum 1963-1995. Sjávarútvegs-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1974-1978, heilbrigðis- og tryggingamála- og samgönguráðherra 1983-1985, samgöngu- og viðskiptaráðherra 1985-1987. 

Matthías var formaður Félags ungra sjálfstæðismanna, FUS, á Ísafirði 1942-1946. Formaður Sjálfstæðisfélags Ísfirðinga 1945-1950. Formaður Fjórðungssambands sjálfstæðismanna á Vestfjörðum 1955-1961. Formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Ísafirði 1960-1968. Bæjarfulltrúi á Ísafirði 1946-1970, forseti bæjarstjórnar 1950-1952. Í stjórn útgerðarfélagsins Ísfirðings hf. 1947-1959, formaður 1950-1959. Í stjórn Vinnuveitendafélags Vestfjarða 1958-1972. Í stjórn Útvegsmannafélags Ísfirðinga 1960-1963. Í stjórn Útvegsmannafélags Vestfirðinga 1963-1970. Í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna 1962-1974.

Formaður stjórnar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum 1967-1974 og 1979-1983. Í stjórn Sandfells hf. á Ísafirði síðan 1965, formaður síðan 1970. Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1970-1991. Í stjórn Fiskimálasjóðs 1969-1974. Í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs 1970-1971. Í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972-1974 og 1978-1983. Í stjórnarskrárnefnd sem skipuð var 1979, formaður nefndarinnar frá nóv. 1983. Í stjórn Grænlandssjóðs 1981-1990, formaður stjórnarinnar. Í stjórn Hollustuverndar ríkisins 1981-1983. Í stjórn Byggðastofnunar 1987-1995, formaður frá 1994. Í Hrafnseyrarnefnd frá 1987.

mbl.is