Telja sérstakan skorta valdheimild

Lögmenn í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone.
Lögmenn í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone. mbl.is/Rósa Braga

Sakborningar í Milestone-málinu kröfðust frávísunar við fyrirtöku málsins fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og er krafan byggð á því að sérstakur saksóknari hafi við rannsókn málsins farið út fyrir valdmörk sín.

„Embætti sérstaks saksóknara var sett á laggirnar til þess að rannsaka möguleg brot í aðdraganda hrunsins. Við viljum meina að það að rannsaka viðskipti sem eiga sér stað tveimur til þremur árum fyrir hrun falli ekki undir þær heimildir sem sérstakur saksóknari hafði,“ sagði Ólafur Eiríksson, lögmaður Karls Wernerssonar, í samtali við mbl.

Hann segir sérstakan saksóknara hafa fengið auknar heimildir frá löggjafanum til þess að rannsaka aðdraganda hrunsins og ástæður. „Sérstakur saksóknari fékk frekari heimildir en efnahagsbrotadeild lögreglu, þar á meðal hvað varðar húsleitir og rannsóknir án úrskurðar dómara. Það er ekki val sérstaka að ákveða hvað hann rannsakar heldur verður það að vera innan ákveðinna marka,“ sagði Ólafur.

Í málinu eru Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, Karl Wernersson stjórnarformaður og Steingrímur Wernerson stjórnarmaður ákærðir fyrir umboðssvik, meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga í tengslum við greiðslur til Ingunnar Wernersdóttur en þær námu á sjötta milljarð króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert