Eðlilegt að fá að hlusta á viðtalið í upprunalegri mynd

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist ekki alltaf hafa verið sáttur við það hvernig fréttamenn klippi til viðtöl og sleppi mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning. Steininn hafi hins vegar tekið úr síðasta föstudag.

Á facebooksíðu sinni segir hann að eftir viðtal sem hann veitti Ríkisútvarpinu á föstudag hafi hann beðið um að fá óklippta upptöku af viðtalinu til skoðunar. RÚV hafi hins vegar hafnað beiðninni. „Þegar álitamál eru um hvort rétt sé eftir manni haft er eðlilegt að minnsta kosti að hægt sé að hlusta á viðtalið í upprunalegri mynd eða fá í hendurnar,“ segir hann.

„En hvað sagði ég við RÚV síðastliðinn föstudag sem fréttamaðurinn taldi að ætti ekki erindi í umræðuna? Jú, ég kom því á framfæri að vitanlega gæti utanríkismálanefnd komið með niðurstöðu, tillögu varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram varðandi þingsályktun um að draga umsókn Íslands að ESB til baka.

Fréttamanni þótti það ekki fréttaefni að ráðherra opni á slíkt,“ bendir hann á.

Aðeins beðið um upptöku til skoðunar

Fréttastjóri RÚV, Óðinn Jónsson, sagði frá því á facebooksíðu sinni í dag að Gunnar Bragi hefði neitað RÚV um viðtal nema hann fengi eintak af því í heild, óklipptu, eða það yrði sent út í beinni útsendingu. Hann sagði að óskað hefði verið eftir viðtali um ástandið í Úkraínu.

Í samtali við mbl.is segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, að aðeins hafi verið beðið um óklippta upptöku til skoðunar af viðtalinu sem Gunnar Bragi veitti RÚV.

Aldrei hafi verið beðið um að hafa hönd í bagga með stýringu eða klippingu á viðtalinu.

Frétt mbl.is: „Ef þið klippið þetta ekki allt til“

mbl.is

Bloggað um fréttina