„Ef þið klippið þetta ekki allt til“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Fréttastjóri RÚV, Óðinn Jónsson, segir frá því á facebooksíðu sinni að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi neitað RÚV um viðtal nema hann fengi eintak af því í heild, óklipptu, eða það yrði sent út í beinni útsendingu.

Óðinn segir að óskað hafi verið eftir viðtali um ástandið í Úkraínu. 

Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður á RÚV, segir í athugasemd við færslu Óðins að ráðherrann hafi „boðist“ til að koma í viðtal í beinni um ástandið í Úkraínu. „Á sama tíma neitar hann alla helgina að koma í viðtal hjá RÚV um ESB. Sérstakt ...“ skrifar Jóhann Hlíðar.

Annar fréttamaður á RÚV, Haukur Holm, skrifar: „Afsakið að ég spyr, en er þetta ekki maður í almannaþjónustu í lýðræðisríki?“

Í frétt á vef RÚV kemur fram að fréttastofan hafi óskað eftir skriflegum skýringum utanríkisráðuneytisins á skilyrðunum. Þar kemur fram að Stöð 2 hafi fengið viðtal við ráðherrann, skilyrðislaust.

Á Vísi má sjá myndskeið af samskiptum Gunnars Braga og fréttamanns RÚV. Fréttamenn báðu Gunnar um viðtal og svaraði Gunnar fréttamanni RÚV: „Ef þið klippið ekki allt til.“ Fréttamaðurinn sagðist þá engu geta lofað um það og þá svaraði Gunnar: „Þá tala ég ekki við þig.“

Facebooksíða Óðins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert