Lögbannsmál fellt niður

Unnið er að því að leggja nýjan Álftanesveg í gegnum …
Unnið er að því að leggja nýjan Álftanesveg í gegnum Garðahraun. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt niður mál fernra umhverfisverndarsamtaka sem stefndu Vegagerðinni á síðasta ári vegna lagningu nýs Álftanesvegar. Samtökin kröfðust lögbanns á framkvæmdina í lok ágúst. Lögmaður samtakanna fór fram á það í héraði í dag að málið yrði fellt niður og varð dómari við þeirri kröfu.

„Það er orðið svo langt um liðið og m.a. raunverulegir hagsmunir eyðilagðir. Það er ekkert að gerast og það verður því að fella það niður,“ segir Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lögmaður Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina, í samtali við mbl.is.

Ragnheiður bendir á að um hálft ár sé liðið frá því farið var fram á lögbannið. Framkvæmdir hófust hins vegar í hrauninu október sl. og hafa staðið yfir síðan þá.

Tvö dómsmál hafa verið í gangi vegna Álftanesvegar. Annars vegar mál þar sem samtökin vildu fá hrundið ákvörðun sýslumanns um að synja lögbanni á framkvæmdina, en sýslumaður vísaði lögbannskröfu frá á þeirri forsendu að samtökin ættu ekki lögvarða hagsmuni og því ekki aðild að málinu. Samtökin höfðuðu dómsmál til að fá ákvörðuninni hnekkt. Í því máli var farið fram á að fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins en Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur höfnuðu því.

Hitt málið snýst um vegarlagninguna sjálfa og lögmæti hennar á þeim grundvelli að umhverfismat og framkvæmdaleyfi séu ekki gild. Í því máli var einnig óskað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

„Okkur fannst vera komið að þeim tímapunkti núna að það væri ekki forsvaranlegt að halda áfram með þetta,“ segir Ragnheiður um lögbannsmálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert