Andlát: Karl J. Guðmundsson, leikari og þýðandi

Karl J. Guðmundsson leikari.
Karl J. Guðmundsson leikari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Karl Guðmundsson, leikari og þýðandi, lést mánudaginn 3. mars síðastliðinn. Hann var 89 ára að aldri.

Karl fæddist 28. ágúst 1924 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðmundur S. Guðmundsson, vélstjóri og einn af stofnendum Hampiðjunnar og forstjóri hennar til dauðadags, og Lára Jóhannesdóttir húsfrú. Karl útskrifaðist sem stúdent frá MR árið 1944 nam við Handíða- og myndlistaskólann. Hann útskrifaðist frá Royal Academy of Dramatic Art í Lundúnum árið 1952.

Við heimkomu sína hóf Karl þegar störf sem leikari og starfaði hann mestalla starfsævi sína hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Lék hann í um það bil 100 leikverkum fyrir leikfélagið, en tók einnig þátt í sýningum hjá Þjóðleikhúsinu, Grímu, Leiksmiðjunni og Nemendaleikhúsi LÍ. Þá lék hann og las upp í Ríkisútvarpinu um árabil. Karl varð fljótt landsþekkt eftirherma og skemmtikraftur. Líkti hann eftir samtíðarmönnum sínum, einkum stjórnmálamönnum. Meðal þeirra sem hann hermdi eftir má nefna þá Halldór Kiljan Laxness og Bjarna Benediktsson eldri. Karl lék í nokkrum kvikmyndum síðustu árin, og má þar nefna myndirnar Brúðgumann, Sveitabrúðkaup, Punktur, punktur, komma, strik og Foreldrar.

Karl var mikilvirkur þýðandi og orðsnillingur, en hann þýddi á ævi sinni ótal mörg leikrit og ljóð. Listinn yfir þá höfunda sem Karl þýddi er langur, en þar má meðal annars nefna þá Aristófanes, Seamus Heaney, Federico Garcia Lorca, Moliére og Ionescu.Fyrir síðustu jól kom út á prenti þýðing Karls á leikritinu Morð í dómkirkju eftir T.S. Eliot. Þýðingar Karls á ljóðum birtust oft í Lesbók Morgunblaðsins. Einnig starfaði Karl við leikstjórn og kennslu.

Eiginkona Karls var Guðrún Ámundadóttir en hún lést árið 1997. Karl skilur eftir sig tvær dætur, fósturdóttur, átta barnabörn og fimm barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »