Hófust handa við að rífa Fernöndu

Starfsmenn endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar hófu að rífa flutningaskipið Fernöndu í brotajárn síðdegis í dag, en unnið er að niðurrifinu á hafnarsvæðinu í Helguvík. Stefnt er að því að niðurrifinu ljúki eftir um það bil mánuð.

Fimm starfsmenn Hringrásar vinna við niðurrifið. Skipið var flutt til Helguvíkur í desember og síðan þá hefur undirbúningsvinna staðið yfir auk þess sem lögreglan rannsakaði skipið. 

Eldur kom upp í Fernöndu í lok október þegar skipið var statt út af Vestmannaeyjum. Eftir að áhöfninni var bjargað var skipið dregið til Hafnarfjarðar en út aftur þegar eldurinn blossaði upp á ný. Í framhaldinu var skipið dregið til Grundartanga þar sem olíu og olíumenguðum sjó var dælt úr því. Að lokum var það dregið til Helguvíkur.

Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir í samtali við mbl.is að framkvæmdir hafi gengið vel í dag. Menn séu vel tækjum búnir og verkið vel undirbúið. Hann segir að unnið sé í björtu og vonir standi til að það taki um mánuð að rifja skipið í brotajárn. Það verði síðan sent til Spánar, en Einar gerir ráð fyrir að 1.200 til 1.600 tonn af brotajárni fáist úr skipinu.

„Við njótum velvildar Reykjaneshafnar og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja,“ segir Einar ennfremur í tengslum við framkvæmdina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert