Vond staða fyrir Vestmannaeyinga

Herjólfur
Herjólfur Morgunblaðið/Eggert

Engir fundir hafa verið boðaðir í kjaradeilu undirmanna á Herjólfi og viðsemjenda þeirra. Þrátt fyrir yfirvinnubann voru vörur keyrðar frá borði í gær svo hægt væri að koma dagvöru í verslanir. Á annað hundrað krakkar í ÍBV þurfa að fá frí í skóla tvo daga til þess að keppa í handbolta um helgina. Stjórnarformaður ÍBV, Sigursveinn Þórðarson, segir að þetta sé vond staða fyrir alla Vestmannaeyinga.

Yfirvinnubann undirmanna á Herjólfi hefur staðið yfir í tæpa viku og að sögn Jónasar Garðarssonar, formanns Sjómannafélags Íslands, var síðasti fundur í kjaradeilunni haldinn á föstudag hjá ríkissáttasemjara. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni en hægt miðar í viðræðum.

Í gær seinkaði Herjólfi um rúma tvo tíma vegna slæms veðurs. Skipið var því ekki komið til hafnar í Vestmannaeyjum fyrr en eftir klukkan 17 er yfirvinnubann undirmanna hófst. 

Fengu mjólkina sína

Að sögn Jónasar var ákveðið að koma vörum sem voru um borð upp í land enda um dagvöru að ræða fyrir verslanir í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyingar fengu mjólkina sína, segir Jónas í samtali við mbl.is. Þess í stað mættu starfsmenn klukkustund síðar en venjan er til vinnu í morgun.

Meðal þeirra sem komu til Eyja síðdegis í gær var um sjötíu manna hópur unglinga sem hafði mætt á SamFestinginn, hátíð Samfés, um helgina. Til stóð að hópurinn kæmi heim á sunnudag en vegna yfirvinnubanns sigldi Herjólfur ekki um helgina.

Þurfa að fá frí í skóla í tvo daga

Aðalstjórn ÍBV íþróttafélags hefur sent frá sér ályktun þar sem hörmuð er sú staða sem komin er upp varðandi samgöngur við Vestmannaeyjar.

Að sögn Sigursveins Þórðarsonar hefur yfirvinnubannið komið sér illa fyrir félagsmenn. Til að mynda eiga á annað hundrað krakkar að keppa í handbolta í Reykjavík um helgina en vegna yfirvinnubannsins missa þau tvo daga úr skóla, föstudag og mánudag, auk þess sem foreldrar verða að bera kostnað af gistingu fyrir þau þrjár nætur.

Sigursveinn segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort allir krakkarnir mæti til leiks þar sem um langan tíma er að ræða og skólayfirvöld eðlilega ekki ánægð með að missa þau úr skólanum í tvo daga.

„Það hefur oft verið þannig hjá okkur í þessum ferðum að það hefur tekist að fara í dagsferðir, farið að morgni héðan frá Vestmannaeyjum og komið heim að kvöldi eftir keppni yfir daginn. Þannig að ekki þarf að kaupa gistingu en nú þarf að kaupa gistingu í þrjár nætur,“ segir Sigursveinn.

Hefur áhyggjur af því hversu hægt miðar

Hann segir að þetta sé vond staða, ekki bara fyrir félagsmenn í ÍBV heldur alla Vestmannaeyinga.

Sigursveinn segist hafa áhyggjur af því hversu hægt miðar í viðræðum en fjórir dagar eru liðnir frá síðasta fundi. Það skjóti líka skökku við að samningsumboð um atriði sem snertir Vestmannaeyjar sé í Reykjavík. Þetta komi sér illa fyrir íbúa í Vestmannaeyjum en skipti ekki öllu fyrir þá sem sjá um samningaviðræðurnar.

En þetta hefur einnig áhrif á fyrirtæki í Vestmannaeyjum líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu nýverið. Þar var haft eftir Njáli Ragnarssyni, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar Vestmannaeyja, að allur fiskur af markaðnum með Herjólfi.

„Við verðum vör við það að seljendur eru hræddir við verðið, setja minna á markað og flytja meira í gáma beint til útlanda eða í vinnslu hér. Menn eru einfaldlega hræddir við verðfall,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Þar til samningar nást í viðræðum Sjómannafélags Íslands, fyrir hönd starfsmanna Herjólfs, við SA, fyrir hönd Eimskips, mun skipið sigla eins oft og það kemst á milli lands og Eyja til klukkan 17 á daginn í miðri viku. Engar ferðir verða um helgar.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjómannafélagi Íslands eru 12-14 undirmenn um borð í Herjólfi sem skipta á milli sín vöktum. Jónas Garðarsson hjá SÍ segir í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að samningarnir snúist um vinnutíma, hærri laun og sjómannaafslátt.

mbl.is