Hef þurft að berjast grátlega mikið

Hallgrímur Eymundsson er einn þeirra 14 sem eru með NPA-samning …
Hallgrímur Eymundsson er einn þeirra 14 sem eru með NPA-samning í Reykjavík. Ómar Óskarsson

Hallgrímur Eymundsson er 35 ára tölvunarfræðingur hjá Reykjavíkurborg og starfar þar við hugbúnaðarþróun. Hann er með hreyfihömlun, er í hjólastól og þarf aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs. Hallgrímur er einn þeirra 14 sem eru með NPA-samning í Reykjavík, en hann var gerður í fyrrasumar.

„Öll aðstoð sem ég fæ í daglegu lífi er til að lifa því lífi sem ég vil lifa. Ég ræð sjálfur starfsfólk til þess, ég er við stjórnvölinn í eigin lífi en ekki undir einhverri stofnun, eins og áður var,“ svarar Hallgrímur, spurður að því hvernig hann skilgreini NPA í stuttu máli.

Þarf ekki að hafa áhyggjur af einföldustu hlutum

Hvaða áhrif hefur þetta haft á þitt líf? „Það hefur gjörbreyst. Úr því að reiða mig á þjónustu sem er bundin húsinu sem ég bý í, í að geta farið hvert sem er og hvenær sem er með mínum sérhæfða aðstoðarmanni. Áður var mér úthlutað aðstoð úr stórum hópi aðstoðarfólks, oft var það fólk sem ég þekkti ekki og þekkti ekki mig. Með NPA er valdapýramídanum snúið við þannig að ég er ekki neðstur lengur með allt skipurit Reykjavíkurborgar ofan á mér, heldur er ég yfirmaðurinn og ræð mér aðstoðarfólk. Núna get ég tekið ákvarðanir með stuttum fyrirvara og þarf ekki endalaust að hafa áhyggjur af einföldustu hlutum, eins og komast á klósettið.“

Er þetta ekki það sem er kallað mannréttindi? „Jú, það er það.“

Hallgrímur hafði lengi barist fyrir því að fá viðunandi aðstoð og segist hafa verið orðinn langþreyttur á „baráttunni við kerfið“. „Ég hef þurft að berjast grátlega mikið og hef oft verið orðinn svo þreyttur á því. Svona barátta dregur svo úr manni, það er alltaf verið að reyna að taka eitthvað af manni, bjóða eitthvað í staðinn sem á að vera betra en er síðan verra.“

„Ég lifi mínu lífi“

Á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá því að Hallgrímur varð NPA-notandi eins og það er kallað hefur líf hans tekið stakkaskiptum. Ávallt er honum til aðstoðar einn sérhæfður starfsmaður, en hann er með þrjá í fullu starfi og tvo í hlutastarfi. Lengri og styttri ferðalög og heimsóknir, sem ófötluðum þykja sjálfsagður hlutur og voru áður fjarlægur draumur hans, eru nú orðin að veruleika. „Ég lifi mínu lífi og aðstoðarmenn mínir fylgja mér og aðstoða með það sem þarf.“

Hann segist þekkja fjölmargt fólk, bæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum, sem þurfi sárlega á NPA-samningi að halda, en hafi ekki fengið. „Margt af því fólki er að mestu háð vinum og vandamönnum, en fær takmarkaða þjónustu frá sveitarfélaginu sem engan veginn uppfyllir þeirra þarfir.“

Yrði mannréttindasigur

NPA-samningur Hallgríms gildir til áramóta, en þá er búist við því að slíkir samningar verði lögbundnir, þannig að hann mun væntanlega njóta hans áfram. „Verði af því, þá er það þvílíkur mannréttindasigur,“ segir Hallgrímur. „Annars veit maður ekkert um framhaldið, þetta er ekki í hendi. En það væri lífsins ómögulegt að fara úr þessum aðstæðum yfir í það sem var áður. Að taka þessi mannréttindi af manni væri eins og að setja saklausan mann í steininn.“

Hallgrímur segir líf sitt hafa gjörbreyst með því að fá …
Hallgrímur segir líf sitt hafa gjörbreyst með því að fá NPA-samninginn. Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »