Líkar ekki vinnubrögð ESB

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að samkomulag Færeyinga, Norðmanna og Evrópusambandsins um skiptingu makrílkvótans hafi komið sér á óvart og að þetta séu vinnubrögð sem stjórnvöldum líkar ekki.

„Við erum ennþá að reyna kynna okkur þetta betur og fá einhver svör. En eins og þetta lítur út þá eru þetta vitanlega mikil vonbrigði. Við teygðum okkur mjög langt og töldum að við hefðum verið komin með skilning hjá Evrópusambandinu hvernig hægt væri að lenda málum. Þannig að það eru vonbrigði að þeir skuli fara svona fram hjá okkur,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

„Menn hafa verið að reyna alveg fram á síðasta dag að ná einhverri heildrænni sátt, en það virðist hafa verið unnið að þessu einhvers staðar á bak við tjöldin, fjarri okkur,“ segir Gunnar.

Ósáttur við að Færeyingar skuli taka þátt í þessu

„Okkur líkar ekki að Evrópusambandið hafi ekki komið hreint fram við okkur - og auðvitað líkar okkur heldur ekki að Færeyingar skuli taka þátt í þessu, þar sem við höfum verið miklir bandamenn í þessu öllu saman,“ segir ráðherra. 

Hvað varðar Noreg segir Gunnar að Norðmenn hafi, að mati íslenskra stjórnvalda, ekki sýnt mikinn skilning á afstöðu Íslands í deilunni; „hafa verið mjög óbilgjarnir þegar kemur að okkar hugmyndum. Hafa spilað þetta, að okkar mati, mjög fast og ekki vel“.

Skilja ekkert eftir

Þá segir Gunnar, að miðað við þær tölur sem liggi á borðinu virðist sem Norðmenn, Færeyingar og ESB taki til sín allan makrílkvótann. „Og skilja ekkert eftir handa okkur. Við höfum lagt áherslu á að menn myndu virða vísindin í þessu. Miða nýtingu allra út frá vísindunum,“ segir hann. 

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, segir að dyrnar standi enn opnar fyrir Ísland að koma að samkomulaginu í nánustu framtíð.

Spurður út í það segir Gunnar: „Mitt mat í dag er að þetta sé einskis virði miðað við þá framkomu sem við höfum séð. En auðvitað kann að vera að það sé eitthvað í þessari yfirlýsingu sem þarf að skýra betur - þannig að við sjáum til. Við munum nota kvöldið í kvöld og morgundaginn til þess að meta þetta,“ segir ráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert