Stúlkan var með eldri áverka

Frá réttarhöldum í morgun
Frá réttarhöldum í morgun mbl.is/Þórður

Fimm mánaða stúlka sem talin er hafa látist eftir að faðir hennar hristi hana harkalega var með eldri áverka, bæði rifbeinsbrot og brot á sköflungsbeini. Þessir áverkar eru taldir renna stoðum undir að svipað atferli hafi átt sér stað áður, þrátt fyrir að það hafi þá ekki leitt til dauða barnsins.

Aðalmeðferð stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli ríkisaksóknara gegn karlmanni á þrítugsaldri sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar.

Fyrsta vitni sem tekin var skýrsla af í morgun var þýskur réttarmeinafræðingur sem vann krufningarskýrslu í málinu. Eins og greint var frá á mbl.is í morgun telur réttarmeinafræðingurinn að öll merki bendi til þess að barnið hafi verið hrist svo harkalega að það hafi leitt til dauða þess. 

Dánarorsök barnsins er sögð vera miðlæg líffærabilun sem var afleiðing alvarlegs höfuðáverka. Við krufningu kom í ljós að heili stúlkunnar var bólginn, þyngri en heili er vanalega, heilafellingar voru útflattar og greinileg ummerki voru um blæðingar. Ástand heilans var þannig að miðlína heilans hafði færst til vinstri, þar sem blæðingin var hægra megin. Heilinn þrýstist einnig niður á við sem hefur áhrif á öndunarstöðvar líkamans.

Réttarmeinafræðingurinn sagði að það væri fyrst og fremst heilabólgan og sú útþensla sem hún veldur sem var dánarorsökin.

Þá mátti sjá marbletti á andliti, kinnum og höku, brjóstkassa, baki og báðum fótleggjum. Rispur voru á fótleggjum. Marblettirnir voru flestir svipaðir að stærð og flestir á þeim stöðum að það gefi vísbendingu um að þetta séu gripför. Þá fundust áverkar á eyrum sem ekki voru talin vera gripför en frekar eftir að barnið var slegið.

Blæðing var inn á hjartahimnu og taldi réttarmeinafræðingurinn að það væru ummerki um fast grip og tengdist áverkunum á brjóstkassa.

Ennfremur voru merki um blæðingu í augum og sagði réttarmeinafræðingurinn að áverkarnir væru afleiðingar af því þegar heili og höfuðkúpa hreyfðust mishratt. Við það gætu æðar rifnað sem leiddi til blæðinganna. Heilablæðingin kemur til af sama hristingi.

Aðalmeðferð heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert