Lottó freistar fleiri á krepputímum

Það er afskaplega ólíklegt að vinna í lottó en margir …
Það er afskaplega ólíklegt að vinna í lottó en margir sjá ekki aðra leið til að bæta kjör sín. mbl.is

Lottóspilun Íslendinga hefur aukist í kjölfar efnahagskreppunnar, einkum hjá þeim sem eiga erfitt með að ná endum saman. Fólk virðist grípa þessa leið í von um að bæta fjárhagsstöðuna þrátt fyrir að afar litlar líkur séu á því að vinna.

Öðru hverju dettur þó einhver í lukkupottinn þannig að eftir því er tekið, eins og hjónin sem unnu 44 milljónir króna síðasta laugardag. Vinningurinn kom sér vel fyrir hjónin, sem eru bæði ellilífeyrisþegar og ætla nú loksins að kaupa sitt eigið hús eftir að hafa glímt lengi við síhækkandi leiguverð.

Líklega eru það sögur eins og þessar sem kynda undir vonum lottóspilenda og svo virðist vera sem í kreppunni sjái fleiri lottó sem leið til að bæta kjör sín.

Meirihluti Íslendinga lottar

Daníel Þór Ólason, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands, hefur rannsakað þátttöku í peningaspilum og spilafíkn um nokkurt skeið. Samanburður á niðurstöðum síðustu ára bendir til þess að aukning hafi orðið í peningaspilum almennt eftir hrun, og fyrst og fremst í lottóspilun.

Um er að ræða þrjár faraldursfræðilegar rannsóknir sem gerðar voru 2005, 2007 og 2011. Að auki var gerð önnur rannsókn 2011 þar sem hluti þátttakenda frá árinu 2007 var beðinn um að svara sömu spurningum aftur. Daníel mun bera saman niðurstöður þessara rannsókna á Sálfræðiþingi 2014, sem fram fer um helgina.

„Í megindráttum sýna þessar rannsóknir að fleiri spila peningaspil árið 2011 en gerðu árið 2007, það hefur sem sagt orðið aukning,“ segir Daníel. Aukningarinnar gætir fyrst og fremst í lottóspilun, úr tæpum 50% í rúm 60%, en þeim hefur einnig fjölgað talsvert sem taka þátt í bingó eða kaupa skafmiða.

Samband milli lottóspilunar og fjárhagsvanda

Í tilraun til að greina áhrif hrunsins á líf fólks var í rannsókninni 2011 spurt um fjárhagsstöðu fólks, annars vegar hvernig gengi að ná endum saman og hinsvegar hvort fólk hefði upplifað miklar breytingar á lífskjörum sínum miðað við hvernig þau voru fyrir hrun.

„Þegar við skoðuðum svörin í samhengi við peningaspilun þá sáum við að þeir sem áttu í erfiðleikum með að ná endum saman 2011 voru líklegri til þess að kaupa lottó- og skafmiða heldur en þeir sem ekki áttu í erfiðleikum,“ segir Daníel. Þessi tenging fannst ekki milli fjárhagsstöðu og annarrar peningaspilamennsku.

Því megi leiða líkum að því að fleiri sjái von um að bæta fjárhagsstöðu sína með því að taka þátt í lottó. Daníel segir þetta í samræmi við niðurstöður rannsókna í Ameríku þar sem skoðuð hafa verið áhrif kreppu á þátttöku í peningaspilum. En af hverju lottó frekar en annað?

„Sennilega vegna þess að upphæðir í lottó eru tiltölulega háar en miðinn ódýr,“ segir Daníel. „Þannig að fjárfestingin er lítil en mögulegur ávinningur mjög stór. Hinsvegar eru mjög litlar líkur á því að vinna í lottói og því getur það ekki tlaist góð fjárfesting að spila reglulega. Einu skynsamlegu ástæðurnar fyrir því að spila lottó eða önnur peningaspil væri sú að vilja styrkja góð málefni eða ánægjunnar vegna, en ekki til að græða peninga.“

Spilavandi eykst

Á sama tíma og lottóspilurum fjölgar hefur dregið úr notkun spilakassa frá árinu 2007. Aukningar gætir hinsvegar í póker og peningaspilun á netinu, en hún er annars eðlis en lottóspilunin.

„Það eru aðallega ungir karlmenn á aldrinum 18-25 ára sem spila þessar tvær tegundir peningaspila meira en aðrir,“ segir Daníel.

Þá hefur orðið marktæk aukning í spilavanda milli ára. Niðurstöður 2005 bentu til þess að 1,6% þátttakenda glímdu við spilavanda, en það hlutfall var komið upp í 2,6% árið 2011. Daníel segir að líklega megi fyrst og fremst rekja þetta til aukinna net- og pókerspilunar.

„Þetta eru ekki háar tölur og því er ekki um neinn faraldur að ræða, en það má ekki gleyma því að á bak við hvern spilafíkil eru aðstandendur sem líða vegna neikvæðra afleiðinga fíknarinnar. Eðli hennar er þannig að mestallt fé fer í fíknina í stað þess að fara til dæmis í að greiða af bíla- eða húsnæðislánum fjölskyldunnar.“

Daníel fer nánar yfir niðurstöðurnar á Sálfræðiþingi 2014, en það fer fram á Hilton Nordica hótelinu á laugardag og hefst kl. 9.

Notkun spilakassa hefur dregist saman á sama tíma og lottóspilun …
Notkun spilakassa hefur dregist saman á sama tíma og lottóspilun eykst. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is