Lokatilraun til að forða verkfalli

Samningamenn framhaldsskólakennara ráða ráðum sínum.
Samningamenn framhaldsskólakennara ráða ráðum sínum.

Samningafundi í kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins lauk á tíunda tímanum í kvöld. Annar fundur hefur verið boðaður í fyrramálið. Samningamenn vilja ekkert segja um gang viðræðna, en á morgun verður gerð lokatilraun til að komst hjá verkfalli sem hefst á mánudagsmorgun takist ekki að semja.

Kennarar krefjast 17% launahækkunar auk umbóta á fjármálum framhaldsskólanna. Einnig er rætt um skólastarfsbreytingar í samræmi við framhaldsskólalögin frá 2008 en framkvæmd þeirra hefur frestast að hluta vegna efnahagsaðstæðna. Lögin eiga að taka að fullu gildi haustið 2015.

Um tíma var rætt um að í kjarasamningnum yrði tekið mið af markmiði stjórnvalda um að stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú ár, en þær viðræður sem hafa staðið yfir í dag gera ekki ráð fyrir launabreytingum til kennara á þeim grunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina