Landeigendurnir sáttir við gang mála

Frá Geysissvæðinu í dag.
Frá Geysissvæðinu í dag. mbl.is/Golli

„Þetta gekk alveg prýðilega í dag. Við höfum bæði fengið hvatningarorð og góðar óskir og erum sátt við gang mála,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður landeigenda á Geysi, í samtali við mbl.is.

Ekki fengust tölur yfir fjöldann sem greiddi 600 króna aðgangseyri að svæðinu í dag en Garðar segir að umferðin hafi verið heldur minni en um helgina. Um tvö þúsund manns greiddu gjaldið yfir laugardag og sunnudag, sem þýðir ríflega milljón í kassann fyrir landeigendur.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag voru nokkrir hópar ferðamanna sem ákváðu að greiða ekki gjaldið um helgina, en ekkert slíkt atvik kom hins vegar upp í dag, að sögn Garðars. Hann segir þó að einhverjir ferðamenn hafi haldið sig fyrir utan girðinguna.

Yfir helgina voru níu manns að störfum við að sinna þrifum, öryggisgæslu og gjaldtöku og var þeim fjölgað í tólf í dag. „Við bregðumst við því sem við lærum dag frá degi,“ segir Garðar.

Geysissvæðið ber að vernda

Eigendur Geysissvæðisins hafa lengi bent á að þeir hafi borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur kæmu á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu.  

„Vinna við öryggisáætlun svæðisins og forgangsröðun verkefna er þegar hafin. Nýkynnt verðlaunatillaga um uppbyggingu á Geysissvæðinu undirstrikar nauðsyn þess að vernda svæðið, forða því frá skemmdum og auka upplifun ferðamanna. Geysissvæðið ber að vernda og gjaldtaka er forsenda þess,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu sem eigendurnir sendu frá sér fyrir helgi.

Gjaldtakan hófst klukkan níu seinasta laugardag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert