Eiga rúmlega milljarð í sjóði

Hlé var gert á samningaviðræðum í kjaradeilu framhaldsskólakennara um kvöldmatarleytið …
Hlé var gert á samningaviðræðum í kjaradeilu framhaldsskólakennara um kvöldmatarleytið í gær. Nýr fundur hefst hjá ríkissáttasemjara kl. 10 fyrir hádegi í dag. Kristinn Ingvarsson

Rúmlega einn milljarður króna er í vinnudeilusjóði Kennarasambands Íslands en ekki hefur verið greitt í sjóðinn af félagsgjöldum kennara síðan í upphafi árs 2010.

Hver félagsmaður í fullu starfi fær greiddar sex þúsund krónur á dag, alla daga vikunnar, meðan á verkfalli stendur. Samkvæmt upplýsingum frá Ingibergi Elíassyni, formanni stjórnar vinnudeilusjóðs Kennarasambands Íslands, eru skattar síðan dregnir frá þeirri fjárhæð og þeir sem ekki eru í fullu starfi fá greitt í samræmi við vinnuhlutfall. 

Fyrsta greiðsla eftir tvær vikur

Þeir sem eru í verkfalli fá fyrst greitt úr sjóðnum tveimur vikum eftir að verkfall hófst eða þann 31. mars nk.

Hlé var gert á samningaviðræðum í kjaradeilu framhaldsskólakennara um kvöldmatarleytið í gær. Nýr fundur hefst hjá ríkissáttasemjara kl. 10 fyrir hádegi í dag. Vinnuhópar héldu áfram að funda um afmörkuð málefni í gærkvöldi.

Kanna með verkfallsbrot

Verkfallsstjórn framhaldsskólakennara heimsækir alla framhaldsskólana í Reykjavík og nágrenni í dag til að afla upplýsinga og tryggja að verkfallsbrot eigi sér ekki stað. Jafnframt mun hún hafa samband við framhaldsskóla úti í landi í sömu erindum.

„Okkur hafa borist margar fyrirspurnir í dag og við höfum svarað þeim. Það á svo eftir að koma í ljós hvort við þurfum einhver afskipti að hafa,“ sagði Sigurður Ingi Andrésson, formaður verkfallsstjórnar, í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann segir að skólaumhverfið sé nú mun flóknara en það var síðast þegar framhaldsskólakennarar fóru í verkfall um aldamótin, sérstaklega vegna tölvuvæðingar. Í síðasta verkfalli þurfti stjórnin að taka á örfáum tilfellum en þau leystust öll farsællega að sögn Sigurðar.

Sérstök verkfallsmiðstöð framhaldsskólakennara verður opnuð í Framheimilinu í Reykjavík kl. 11 fyrir hádegi í dag. Þangað geta allir kennarar komið til að heyra um stöðu mála í samningaviðræðunum, framkvæmd verkfallsins og til skrafs og ráðagerða. Fulltrúar verkfallsstjórnar verða á staðnum.

Verkfallsmiðstöð var opnuð í KA-heimilinu á Akureyri í gær. Þar koma kennarar úr MA og Verkmenntaskólanum saman. Á fundi þeirra í gær var samþykkt ályktun þar sem mótmælt var „harðlega því útspili samninganefndar ríkisins að blanda óljósum hugmyndum um styttingu náms inn í kjaraviðræður“, eins og það var orðað.

Fram kom á vef Bæjarins besta á Ísafirði í gær að skólameistari Menntaskólans, Jón Reynir Sigurvinsson, kennir jarðfræði í verkfallinu, en hann er ekki í Félagi framhaldsskólakennara. Hann var harðorður í samtali um verkfallið: „Ætlunin eftir síðasta verkfall var að nú yrði skipt um vinnuaðferðir og ekki kæmi til verkfalls aftur, en það virðist ekki hafa tekist. Það er til skammar að það sé ekki hægt að semja um þokkaleg laun fyrir kennara nema með ofbeldisaðgerðum og ég tel að báðir aðilar eigi sína sök á því.“

Víða eru stundakennarar að störfum, en misjafnt var hvernig kennslustundir þeirra voru sóttar eftir að almenna verkfallið hófst í gær. Nemendur framhaldsskólanna hafa áfram aðgang að bókasöfnum og almennum vinnusvæðum skólanna, en ekki var fjölmenni að sjá í húsnæði skólanna í gær. Skólameistarar hvetja nemendur til að halda áfram að sækja skólana og sinna náminu eins og kostur er þrátt fyrir verkfallið.

Kennarar og viðsemjendur hjá sáttasemjara
Kennarar og viðsemjendur hjá sáttasemjara mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina