Mikið tjón fyrir Vestmannaeyjar

Herjólfur.
Herjólfur. mbl.is/Sigurður Bogi

Verkfall undirmanna á Herjólfi hefur staðið í fjórtán daga „með miklu tjóni fyrir Vestmannaeyjar og þjóðarbúið allt,“ segir í tilkynningu frá bæjarráði Vestmannaeyja.

Bæjarráð Vestmannaeyja lýsir þungum áhyggjum af stöðu mála hvað varðar verkfall undirmanna á Herjólfi og hvetur enn og aftur samningsaðila til að setjast niður með sátt í huga og standa ekki upp frá borði fyrr en búið er að ná samkomulagi um þann ágreining sem er í kjaradeilunni.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi bæjarráðsins í dag er ítrekað mikilvægi þess fyrir Vestmannaeyinga að þessari deilu ljúki sem fyrst enda skipið helsta samgöngutæki Eyjanna og hefur það nú verið úr hefðbundnum rekstri í 14 daga og ekki er útlit fyrir að lausn finnist í deilunni. 

Frá því að verkfall undirmanna á Herjólfi hófst 5. mars hefur skipið einungis siglt eina ferð á virkum dögum með nauðsynjavörur og ekkert um helgar. „Nú hefur verið boðuð aukin harka í deilunni og mun skipið því ekkert sigla á föstudögum hér eftir fyrr en deilan verður leyst,“ segir í ályktuninni.

„Eins og gefur að skilja hefur verkfallið áhrif á allt mann- og viðskiptalíf í Vestmannaeyjum.  Fiski er síður landað hér enda nánast vonlaust að koma afurðum á markað, ferðaþjónusta er stopp, framleiðsla fyrirtækja á ferskvörumarkaði stendur tæpt, íþróttalið verða fyrir miklum kostnaði og verða jafnvel að draga lið sín úr keppni, almennir bæjarbúar líða hvern dag. Ljóst er að verkfallið hefur þegar haft áhrif á atvinnuöryggi og ferðafrelsi Eyjamanna almennt.

Á Herjólfi eru sex stöður undirmanna. Sáttatilraunir, bæði hjá ríkissáttasemjara og milli deiluaðila sjálfra, hafa verið árangurslausar og því miður er lausn deilunnar ekki í sjónmáli.    

Samgöngur milli lands og Eyja eru ekki munaðarvara heldur sjálfsögð grunnþjónusta þessa næststærsta byggðakjarna utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar. Ítrekað er að bæjarráð tekur ekki efnislega afstöðu í deilunni en bendir á að rekstur Herjólfs er á ábyrgð ríkisins.  Ríkisstjórn og Alþingi getur því ekki leyft sér að skila auðu þegar ástandið er eins og það er nú. Bæjarráð krefst þess að samgönguyfirvöld og eftir atvikum Alþingi tryggi að samgöngum við Vestmannaeyjar verði sem fyrst komið í eðlilegt horf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert