Styttist í niðurstöðu vegna skotárásar

Lögreglumaður á gangi fyrir utan fjölbýlishúsið í Hraunbæ að morgni …
Lögreglumaður á gangi fyrir utan fjölbýlishúsið í Hraunbæ að morgni 2. desember. Rósa Braga

Endanleg niðurstaða rannsóknar embættis ríkissaksóknara á atvikum og aðgerðum lögreglu í fjölbýlishúsinu að Hraunbæ 20 í Reykjavík, að morgni 2. desember sl., liggur ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu styttist þó í niðurstöðuna. Krufningarskýrsla hefur ekki borist en önnur gögn liggja fyrir.

Að morgni 2. desember var lögregla kölluð til vegna hávaða að íbúð í Hraunbæ 20 í Árbæ. Umsátursástand skapaðist en karlmaður í íbúðinni skaut ítrekað af haglabyssu og síðan á lögregluna þegar hún mætti á staðinn. Hann féll að lokum fyrir skotum lögreglu þegar þess var freistað að fara inn í íbúðina og yfirbuga hann. Maðurinn átti við geðræn vandamál að stríða.

Ríkissaksóknari hóf á grundvelli 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, rannsókn á atvikum og aðgerðum lögreglu. Í tilkynningu sem barst frá lögreglu eftir atvikið sagði að við rannsókn sína muni ríkissaksóknari, með aðstoð lögreglumanna við embætti sérstaks saksóknara, sbr. 3. mgr. 35. gr. lögreglulaga, taka skýrslur af lögreglumönnum sem voru á vettvangi og fara yfir aðgerðir lögreglu með hliðsjón af almennum hegningarlögum, lögreglulögum og verklagsreglum ríkislögreglustjóra þegar um beitingu skotvopna er að ræða.

Í febrúar fékk ríkissaksóknari öll gögn vegna rannsóknar tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á skotárásinni. Öll gögn liggja því fyrir utan krufningarskýrslunnar. Þegar hún berst ætti að vera stutt í niðurstöðu embættisins.

mbl.is