Allt í lagi að líta skringilega út

Guðni Hannesson tekur við verðlaunum í Hörpu í kvöld.
Guðni Hannesson tekur við verðlaunum í Hörpu í kvöld. mbl.is/Eggert

Guðni Hannesson þótti vera með fallegasta skeggið af þeim sem tóku þátt í Mottumarsárvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins. Í samtali við mbl.is segist hann ekki hafa þurft að hafa mjög mikið fyrir því að safna skegginu þar sem hann skarti vanalega alskeggi.

„Ég var alskeggjaður ansi lengi áður en ég rakaði skeggið í mottu,“ segir hann. Guðni hefur nokkrum sinnum áður tekið þátt í átakinu og segir hann að mottan hafi ávallt verið mjög svipuð. Það var hins vegar ekki fyrr en nú í ár að hann hlaut náð fyrir augum dómnefndarinnar.

Hann segir að fólki verði stundum starsýnt á hann vegna mottunnar en að það sé hins vegar algjörlega þess virði. „Jú, jú, fólki finnst þetta skrítið, en mér finnst allt í lagi að líta skringilega út fyrir gott málefni.“

Yfir 26 milljónir króna hafa safnast

Guðni safnaði sjálfur 27 þúsund krónum en alls hafa safnast rúmar 26 milljónir króna í átakinu.

Lokahóf átaksins var haldið í Hörpu í kvöld og voru veitt verðlaun fyrir fegurstu mottuna og þrjú efstu sætin í liða- og einstaklingskeppni.

Fegursta mottan var valin af Meistarafélagi hárskera
, en Guðni fékk í verðlaun sérstaka viðurkenningu sem og aðgang fyrir tvo í Reykjavík Spa, Veiðikortið, grænmetiskörfu frá Íslenskum grænmetisbændum og þverslaufu frá Nek by Nek.

Páll Sævar Guðjónsson var krýndur Sigurvegari Mottumars í ár, en honum tókst að safna 1.069.000 kr. Vilhjálmur Einarsson varð í öðru sæti og Pétur Jakob Pétursson í því þriðja.

Vinir Villa sigruðu liðakeppnina

Í liðakeppninni hrepptu Vinir Villa fyrsta sætið. Það er hópur manna sem eru góðir vinir Vilhjálms Óla Valssonar, sigurvegara mottumars 2013, sem lést af völdum krabbameins þann 30. mars 2013. 

Þeir settu sér það markmið að safna sömu upphæð og Vilhjálmur vann með í Mottumars í fyrra, 1.639.000. kr. Með þátttöku sinni í keppninni í ár vildi þeir heiðra minningu góðs vinar með því að safna áheitum líkt og hann gerði allt fram á síðasta dag.

Guðni Hannesson skartaði glæsilegri mottu í ár.
Guðni Hannesson skartaði glæsilegri mottu í ár.
Páll Sævar Guðjónsson safnaði mestu í einstaklingskeppni Mottumars í ár.
Páll Sævar Guðjónsson safnaði mestu í einstaklingskeppni Mottumars í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Vinir Villa söfnuðu mestu í liðakeppninni í ár.
Vinir Villa söfnuðu mestu í liðakeppninni í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina