Lætur ekki mænuskaða stöðva sig

Margir láta sig dreyma um að gera bíómyndir en færri láta verða af því, Pétur Guðmundsson lét mænuskaða ekki stöðva sig í að gera sína mynd. Í hjólastól og sérsmíðuðum spelkum ferðaðist hann t.d. um hálendið og myndaði náttúru landsins fyrir 70 mínútna langa mynd sína: Heild, sem er væntanleg í bíó.

Það gekk á ýmsu við kvikmyndagerðina og Pétur lýsir því í myndskeiðinu þegar hann festi bílinn sinn á Langanesi, einum afskekktasta stað landsins. Hann segist engan veginn hafa gert sér grein fyrir því út í hvað hann var að fara þegar vinnan hófst einungis nokkrum mánuðum eftir að hann lenti í slysi á nýársnótt árið 2011 sem varð til þess að hann missti máttinn í fótunum.

Myndin er ofin saman með myndefni sem tekið var upp víða um landið en enginn eiginlegur söguþráður er í henni og fellur hún því í flokk með svokölluðum „non-narrative“ bíómyndum á borð við: Koyaanisqatsi , Baraka og Samsara

Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið um landið segist Pétur hafa upplifað náttúru landsins upp á nýtt við gerð myndarinnar og hann vonast til að sú tilfinning skili sér til áhorfenda: „Hún er byggð þannig upp að það á engum að leiðast á því að horfa á hana þó enginn sé að segja þeim hvað þeir eigi að hugsa um þegar þeir eru að horfa á hana."  

mbl.is ræddi við Pétur á dögunum en myndin verður frumsýnd fjórða apríl.

Hér má sjá stiklu úr myndinni.

Hér má sjá gamalt viðtal við Pétur þegar hann var í endurhæfingu á Grensásdeild.

mbl.is

Bloggað um fréttina