Jaðri við hryðjuverkastarfsemi

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hótanir náttúrverndarsamtaka í garð skipafélaga, sem flytja út hvalaafurðir, jaðri við „hryðjuverkastarfsemi“. Þær séu að minnsta kosti mjög alvarlegur rógburður.

Hann gerði hvalveiðar að umtalsefni á Alþingi í dag.

Eins og greint hefur verið frá ætlar norðurameríska matvælafyrirtækið High Liner Foods ekki að eiga í viðskiptum við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, þar á meðal HB Granda, fyrr en þau slíta öllum tengslum sínum við hvalveiðar.

Jón sagði að hræðsluáróður hefði verið rekinn, bæði hérlendis og erlendis, en að árangurinn hefði verið sá að lítið hefði gengið eftir. „Við höfum séð hótanirnar sem við stöndum nú frammi fyrir áður,“ sagði hann.

Hann rifjaði upp ýmis ummæli og yfirlýsingar sem ýmis samtök, bæði náttúruverndarsamtök og aðilar í ferðaþjónustunni, létu falla þegar hvalveiðar voru leyfðar eftir margra ára hlé árið 2003. „Við stóðum hins vegar í lappirnar og héldum okkar striki,“ sagði Jón.

Árangurinn hefði síðan ekki látið á sér standa. Fjölgunin hefði verið gríðarleg í ferðaþjónustunni, greinar innan ferðaþjónustunnar, eins og hvalaskoðun, hefðu aldrei notið jafnmikilla vinsælda og að langstærstur hluti veitingastaða hefði hvalkjöt á matseðlinum sem útlendingar borðuðu af bestu lyst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert