Ákæru á hendur Hannesi vísað frá

Hannes Smárason.
Hannes Smárason. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli sérstaks saksóknara á hendur Hannesi Smárasyni. Hann var ákærður fyrir fjárdrátt í fyrra með því að hafa 25. apríl 2005 sem stjórnarformaður FL Group dregið sér af fjármunum FL Group 2,875 milljarða króna sem hann ráðstafaði til Fons.

Hannes var ekki viðstaddur þegar dómari kvað upp úrskurðinn við fyrirtöku málsins í morgun. Farið var fram á frávísun málsins í janúar sl. og þann 6. mars fór fram málflutningur.

Gísli Guðni Hall, verjandi Hannesar, fagnaði niðurstöðunni í samtali við mbl.is. „Þetta er í samræmi við okkar væntingar,“ segir Gísli. „Ég held að þessi úrskurður skipti miklu máli.“

Aðspurður segir hann að málinu hafi verið vísað frá á þeim grundvelli að háttsemin sem Hannesi er gefin að sök í ákærunni hafi ekki verið lýst með fullnægjandi hætti. Gísli segir að þetta sé að sínu viti í samræmi við önnur dómafordæmi.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknarfulltrúi segir í samtali við mbl.is að nú verði farið yfir úrskurðinn, en saksóknari hefur þrjá sólarhringa til að ákveða hvort úrskurðurinn verði kærður. Það verður þó að teljast líklegt.

Spurður út í mögulega kæru, segir Gísli að saksóknari hljóti að íhuga það alvarlega. Hann telur hins vegar að niðurstaðan í dag hafi ekki átt að koma ákæruvaldinu á óvart.

Frétt mbl.is: Hannes Þór Smárason krefst frávísunar

Frétt mbl.is: Íhugar að krefjast frávísunar

Frétt mbl.is: Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt

Frétt mbl.is: Þriggja milljarða millifærslan

Frétt mbl.is: Staðfestir millifærslu frá FL

Frétt mbl.is: Hannes segist ekki hafa brotið lög

Frétt mbl.is: Tugmilljóna einkaútgjöld á viðskiptamannareikning

Frétt mbl.is: Hannes vísar ásökunum á bug

Frétt Morgunblaðsins: Stjórnendur Icelandair lögðust gegn kaupum á Sterling Airlines

Frétt Morgunblaðsins: Hlutafé aukið um 44 milljarða og fækkað í stjórn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert