Tímakistan og Stína stórasæng tilnefndar

Andri Snær Magnason og Lani Yamamoto í Norræna húsinu í …
Andri Snær Magnason og Lani Yamamoto í Norræna húsinu í dag.

Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason og Stína stórasæng eftir Lani Yamamoto eru tilefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Tilnefningar voru opinberaðar á bókamessunni í Bologna í dag. Athöfn var af þessu tilefni í Norræna húsinu þar sem Andri Snær og Lani tóku við viðurkenningu.

Hér má sjá allar tilnefningar til verðlaunanna. Þrettán verk voru tilnefnd.

Íslenska dómnefndin hefur ákveðið að tilnefna þessar bækur og hér að neðan er rökstuðningur hennar:

1. Andri Snær Magnason, Tímakistan, Mál og menning 2013.

Tímakistan fjallar um kunnuglega en þó framandi framtíð þegar mannkynið bíður betri tíma í svörtum kössum sem eru þeirrar náttúru að á meðan fólk er ofan í þeim stendur tíminn í stað. En ástand heimsins fer hríðversnandi á meðan, uns nokkur börn fara af stað og heyra hjá gamalli konu ævintýri um konung sem vildi sigrast á tímanum og eignaðist fyrstu tímakistuna til að vernda dóttur sína fyrir tímanum. Allt fer á versta veg hjá þessum konungi og eins þegar fólkið í samtíma sögunnar ákveður að fela sig í svörtum kassa og bíða þess að aðrir bjargi heiminum.

Í Tímakistunni fléttast saman nútíð, framtíð og fortíð að ógleymdum ævintýraheimi sem allir kannast við en enginn hefur búið í. Það er í þessari mögnuðu fléttu staðreynda, sannleika, galdra og furðu sem Andri Snær Magnason spyr áleitinna spurninga um lifnaðarhætti og gildi hins vestræna nútímasamfélags og ábyrgð hvers einstaklings á ástandi heimsins. Í sögunni er glímt við tímahugtakið og snúið upp á gömul ævintýraminni af ástríðufullri hugmyndaauðgi. Andri Snær er einhver atkvæðamesti rithöfundur Íslendinga seinustu ár, hvass samfélagsrýnir sem iðulega fléttar saman skýrum boðskap og húmor. Hann hefur oft sagt ráðamönnum og stórfyrirtækjum til syndanna í verkum sínum og er Tímakistan þar engin undantekning.

2. Lani Yamamoto, Stína stórasæng, Crymogea 2013.

Stína Stórasæng, fyrsta barnabók Lani Yamamoto á íslensku, er undurfallegt og vandað bókverk. Bókin heitir eftir aðalsöguhetjunni, stelpunni sem er alltaf svo kalt og svo hrædd við kuldann að hún eyðir öllum sínum tíma, orku og ímyndunarafli til að halda kuldanum úti og koma í veg fyrir að hún þurfi að fara út í kuldann. Heita og notalega heimilið verður að sjálfskipuðu fangelsi og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir Stínu að fara undan sænginni, fara fram úr rúminu. Einmanaleikinn og þráin eftir félagsskap verða óttanum loks yfirsterkari og Stína hættir sér út. Í stað þess að súpa á heitu kakói heldur hún nú á sér hita með því að hlæja og leika við vini sína. Stína lærir allnokkrar lexíur í bókinni, þar á meðal að hlutirnir eru ekki alltaf jafn slæmir og hún heldur – stundum eru þeir meira að segja miklu betri.

Texti bókarinnar er blátt áfram og einfaldur en myndirnar uppfullar af smáatriðum – það er alltaf eitthvað nýtt að sjá, nýjar víddir að rannsaka við hvern lestur – og þannig bæta myndirnar sífellt við söguna. Sérstaklega eru vinnuteikningar Stínu skemmtilegar en þær sýna hin ýmsu tæki og tól sem hún ætlar sér að smíða til að halda á sér hita eða koma í veg fyrir að kuldinn komist inn. Stína stórasæng er saga sem mögulegt væri að segja með orðunum einum og sömuleiðis eingöngu með myndum en væri önnur þessara leiða valin myndi bókin glata öllum sínum töfrum því texti og myndir segja söguna í sameiningu og mynda heillandi heild.

Ármann Jakobsson, Helga Birgisdóttir, Gísli Skúlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert