Líkir gjaldtökunni við þjófnað

Ögmundur Jónasson, alþingismaður.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Til þessa hefur þetta verið kallaður þjófnaður,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann gagnrýnir gjaldtöku inn á Geysissvæðið. Segir hann hana vera lögbrot enda gangi hún þvert á landslög. Birtir hann með ljósrit af kvittun fyrir að skoða svæðið.

Einstaklingar á svæðinu hafa tekið sér það bessaleyfi að rukka fólk sem kemur til að skoða þessa einstöku náttúruperlu, án þess þó að hafa til þess nokkurt leyfi. Reyndar gengur þetta þvert á landslög og er því lögbrot! Til þessa hefur þetta verið kallaður þjófnaður,“ segir Ögmundur.

Hvetur hann fólk til þess að mæta að Geysi næstkomandi sunnudagklukkan hálftvö og mótmæla gjaldtökunni. „Ef þessi aðför að almannarétti nær fram að ganga verður Íslandi breytt á afdrifaríkan hátt. Náttúra landsins verður gerð að verslunarvöru að hætti frmustæðustu gróðahyggju. Látum það ekki henda!“

Þá hvetur hann fólk til þess að standa vörð um viðkvæmar náttúruperlur og láta fjármuni renna til þess „en ekki með þessum hætti og ekki til þessara aðila“. Pistilinn endar hann á því að segja að spáin sé sögð góð á sunnudaginn.

Pistill Ögmundar Jónassonar

mbl.is