„Ósæðin til Eyja er slitin“

Frá mótmælum á Básaskersbryggju í gær.
Frá mótmælum á Básaskersbryggju í gær. mbl.is/Ómar Garðarsson.

Íbúar í Vestmannaeyjum eru mjög ósáttir við þá stöðu sem ríkir í samgöngumálum á milli lands og Eyja. Kjaradeila undirmanna Herjólfs hefur nú staðið yfir í rúmar þrjár vikur. „Þetta er skelfilegt ástand,“ segir Óskar Elís Óskarsson, íbúi í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is.

Óskar, sem var á meðal mótmælenda á Básaskersbryggju í gær, segir að ástandið komi niður á öllu samfélaginu. Hann nefnir heilbrigðismálin sem dæmi. Eins og staðan sé í dag þurfi íbúar að leita til Reykjavíkur séu konur komnar að því að fæða, verði alvarleg slys eða fólk veikist alvarlega. „Við erum ekki með svæfingalækni hérna, við erum ekki með skurðlækni og við erum ekki með lyflækni,“ segir Óskar og bætir við að þegar samgöngur séu úr skorðum sé ástandið óboðlegt.

Hátt í 30 á biðlista

Óskar, sem rekur áhaldaleigu í bænum, greinir frá því að þarsíðasta fimmtudag hafi hann verið númer 33 á biðlista til að komast með bíl um borð í Herjólf en hann og eiginkona hans voru þá á leið í fermingu um sl. helgi. Þau komust svo ekki aftur til Eyja fyrr en á mánudeginum. Í dag eru hátt í 30 á biðlista samkvæmt upplýsingum frá Eimskip.

Spurður út í flugið segir Óskar að það sé ekki ódýrt að fljúga á milli lands og Eyja. Hann tekur fram að þjónustan sé almennt góð en takmörkuð, en það sé t.d. ekki hægt að flytja einkabíla með flugi.

„Samgöngur okkar eru slitnar. Ósæðin til Eyja er slitin og er að stíflast,“ segir Óskar og bætir við að grunnþjónusta á borð við samgöngur verði að vera í lagi. Alþingi eigi því að setja bráðabirgðalög og svo fari málið til kjaradóms sem taki ákvörðun um framhaldið.

Hann tekur fram að að þetta eigi ekki bara við um Vestmannaeyjar heldur aðra staði á landinu, s.s. Grímsey og Flatey. Ferjunar séu mjög mikilvæg samgöngutæki sem beri m.a. vatn, mat og farartæki til og frá eyjunum.

Eins og menn geti ekki talað saman

Aðspurður segir Óskar að ekki sé farið að bera á vöruskorti í bænum. „Það má nú segja að verslun hafi staðið sig mjög vel og undirbúið sig undir það að eiga flestallar vörur.“

Varðandi deiluna telur Óskar að Eimskip hafi haft nægan tíma til að semja við sína undirmenn. Það er Vegagerðin sem semur við Eimskip um rekstur ferjunnar og Óskar segir að Vegagerðin hljóti að bera einhverja ábyrgð á sínum samningsaðilum.

„Það er eins og menn geti ekki talað saman. [...] Mér finnst ekki vera skynsemi á bak við þetta,“ segir Óskar og heldur áfram: „Menn þurfa að setjast niður eins og fullorðnir menn og klára málin,“ segir hann.

Óskar tekur fram að ástandið snúist ekki aðeins um bíla og farþega sem þurfi að komast leiðar sinnar því deilan hafi einnig slæm áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum sem hafi slæm áhrif á samfélagið allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert