„Ríkið getur ekki skilað auðu“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að ríkið verði að koma að málum til að leysa kjaradeilu undirmanna ferjunnar Herjólfs. Staðan í samgöngumálum milli lands og Eyja sé grafalvarleg. Elliði fór yfir stöðu samgangna í Eyjum með samgöngunefnd Alþingis í morgun.

Elliði segir að mikill tími hafi farið í að ræða þá alvarlegu stöðu sem sé uppi vegna verkfalls starfsmanna Herjólfs.

Bitnar verst á almennum íbúum

„Staðan er semsagt sú, að bara til þess að geta verið á fundi kl. 10 á föstudagsmorgun í Reykjavík þarf Eyjamaður að leggja af stað heiman frá sér klukkan hálfníu á fimmtudagsmorgni og er kominn heim klukkan hálffjögur á mánudegi,“ segir Elliði.

Þetta sé sá veruleiki sem íbúar Vestmannaeyja búi við.

„Þetta hefur áhrif á nánast hvern einasta kima samfélagsins og langmest fyrir hinn almenna íbúa. Orlofsdagarnir eru fljótir að fara þegar fólk þarf að taka sér þennan langa tíma í ferðalögin. Við komum bílunum okkar ekki á milli nema bara örfáum á hverjum degi,“ segir Elliði ennfremur.

Hann bendir á að Herjólfur sigli nú aðeins fjórar ferðir á viku. Væri verið að sigla í Landeyjahöfn væru ferðirnar sennilega 30 á viku.

„Staðan er svo grafalvarleg að ríkið, sem er ábyrgt fyrir þjóðvegakerfinu, getur ekki skilað auðu í þessu.“ 

Nefndarmenn ræddu lögbann á verkfallið

Spurður út í viðbrögð nefndarmanna segir hann að þeir hafi lýst skilningi á stöðunni og að þeir hafi greinilega verið mjög hugsi.

„Því miður óttast ég að þetta verkfall leysist ekki án aðkomu ríkisins, hvort sem það verður þá með auknum fjárveitingum til reksturs Herjólfs eða einhverjum öðrum inngripum.“

Spurður nánar út í viðbrögð nefndarmanna segir Elliði að þeir hafi rætt um þann möguleika að setja lögbann á verkfallið. Sumir nefndarmenn hafi lýst þeirri skoðun sinni að það væri vert að kanna grunninn fyrir slíkri aðgerð.

„Við Eyjamenn höfum enga sérstaka skoðun á þessu. Teljum að hvorki við né aðrir íbúar þessa lands eigum að þurfa að hafa áhyggjur af kjaraviðræðum starfsmanna einkafyrirtækja þegar um er ræða grunnþjónustu eins og samgöngur eða vatn og rafmagn,“ segir Elliði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert