Sautján ára piltar handteknir fyrir innbrot

mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Selfossi handtók í gærkvöldi tvo sautján ára pilta fyrir innbrot í skemmtistað þar í bæ. Viðurkenndu þeir að hafa áður brotist þar inn.

Athugull vegfarandi sá til tveggja manna koma út um glugga á skemmtistaðnum Hvíta húsinu á Selfossi rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi og aka á brott.  

Lögreglan fann bifreiðina í Ölfusi stuttu síðar en í henni voru tveir piltar af höfuðborgarsvæðinu. 

Við yfirheyrslur á lögreglustöðinni á Selfossi í gærkvöldi viðurkenndu þeir að hafa brotist inn í Hvíta húsið í gærkvöldi og einnig í eitt skipti fyrr í vetur. 

Erindi þeirra austur á Selfoss að þessu sinni var að selja úlpu sem þeir höfðu tekið ófrjálsri hendi í heimahúsi í Kópavogi fyrir um tveimur vikum, segir á vef lögreglunnar. 

 Vegna aldurs piltanna var fulltrúi barnaverndar viðstaddur yfirheyrslu og foreldrar upplýstir um stöðu máls. Piltarnir voru samstarfsfúsir við að upplýsa málin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert