Gagna aflað með eina beiðni að vopni

Karl Wernersson
Karl Wernersson Rósa Braga

Verjendur í máli sérstaks saksóknara gegn Karli og Steingrími Wernerssonum, fyrrverandi forstjóra Milestone og þriggja endurskoðenda kröfðust þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að málinu yrði vísað frá dómi. Sögðu þeir sérstakan saksóknara hafa skort heimild til að rannsaka málið og það væri því ónýtt.

Ólafur Eiríksson, verjandi Karls, talaði máli verjenda en fyrir hönd sérstaks saksónara flutti málið Arnþrúður Þórarinsdóttir. Ræður þeirra voru um sömu gögn, lög og tímasetningar en túlkun þeirra var ekki sú sama. Það er svo Arngríms Ísbergs, dómara málsins, að ákveða hvaða túlkun er sú rétta. Og síðar Hæstaréttar, ef út í það er farið.

Hér til hliðar er farið yfir ákæruefnið, það er viðskipti með hlutabréf Ingunnar Wernersdóttur á árinu 2005. Þá er ekki úr vegi að birta 1. mgr. 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara og hvernig hún tók breytingum í áranna rás, sökum þess að tekist er á um túlkun á ákvæðinu.

Upphaflega grein hljóðaði á þessa leið: „Sett skal á stofn embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar atburða er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, og þess ástands sem þá skapaðist á fjármálamarkaði, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.“

Í júní 2010 var 1. mgr. 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara breytt og heimildir hans útvíkkaðar: „Embætti sérstaks saksóknara skal rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja og þeirra sem átt hafa hluti í þeim fyrirtækjum eða farið með atkvæðisrétt í þeim, sömuleiðis grun um refsiverða háttsemi stjórnenda, ráðgjafa og starfsmanna fjármálafyrirtækja og þeirra annarra sem komið hafa að starfsemi fyrirtækjanna. Embættið skal eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.“

Þá var í september 2011, þegar efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rann saman við embættið, bætt inn í fyrstu málsgreinina: „Embætti sérstaks saksóknara skal einnig rannsaka grun um alvarleg brot gegn 109. gr., 128. gr., 129. gr., 179. gr., 247.–250. gr., 253. gr., 254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, alvarleg brot gegn skatta- og tollalögum, brot gegn lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og grun um önnur alvarleg, óvenjuleg eða skipulögð fjármunabrot sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum.“

Annmarki á málinu

Í ræðu sinni sagði Ólafur að rannsókn sérstaks saksóknara, sem var undanfari málsins, heyrði ekki undir embættið. Skýrt hafi verið tekið fram í lögum að rannsókn á viðskiptunum sem fram fóru árið 2005 ættu ekki að vera á forræði sérstaks saksóknara. Það sé annmarki á málinu og því beri að vísa málinu frá dómi.

Hann vísaði í upphaflegu greinina í lögum um embættið og sagði að tímabilið frá gildistöku laganna og þar til þeim var breytt í júní 2010 mætti kalla fyrsta tímabilið. Þar megi sjá að rannsókn sérstaks saksóknara átti að einskorðast við það þegar grunur lék á refsiverði háttsemi í aðdraganda atburða, í tengslum við atburði og í kjölfar atburða sem leiddu til setningar neyðarlaganna í október 2008.

Ekkert kom fram í frumvarpi um neyðarlögin hvaða atburðir það voru en hins vegar fjallað um þær aðstæður sem sköpuðust. Aðstæðurnar voru þær að fjármálafyrirtæki voru komin í öngstræti, gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar eða reglur um eiginfjárhlutfall. Það voru því verulegir rekstrarerfiðleikar fjármálafyrirtækja og að þau væri að fara á hliðina sem voru aðstæðurnar.

„Þessir samningar eru gerðir í desember 2005. Þessi viðskipti áttu sér ekki stað í aðdraganda rekstrarerfiðleika fjármálafyrirtækjanna. Það er því ljóst að þetta féll ekki undir rannsóknarheimildir þegar lögin voru sett eða til 9. júní 2010,“ sagði Ólafur.

Grunnvinna unnin árið 2009

Þá fór Ólafur yfir á annað tímabil, sem er frá því breyting var gerð á lögum um embætti sérstaks saksóknara í júní 2010 og fram í september 2011. Þá voru það ekki einungis atvik sem mátti rannsaka heldur einnig grun um refsiverða starfsemi í tengslum við fjármálafyrirtæki. 

Hann sagði að ljóst sé að atvik þessa máls séu hluti af stærri rannsókn á Sjóvá sem hófst árið 2009. Ráðist hafi verið í umfangsmiklar húsleitir hjá Sjóvá, Milestone og fleirum vegna þeirrar rannsóknar. Það sjáist vel á því þegar sérstakur saksóknari fer fram á að fá bankaupplýsingar tíu einstaklinga og fleiri lögaðila hjá Íslandsbanka í september 2009. Bankanum var skylt að afhenda þær þótt upplýsingarnar væru bundnar þagnarskyldu, vegna víðtækra heimilda sérstaks saksóknara, sem aðeins hafi verið veittar vegna hans sérstaka hlutverks. „Hann gat aflað trúnaðargagna með ekki meira en eina beiðni að vopni.“

Mikil grunnrannsóknarvinna hafi því verið unnin á árinu 2009. Þá hafi skiptastjóri Milestone sent sérstökum saksóknara tilkynningu í desember 2010 þar sem upplýst var um viðskiptin sem eru undir í málinu. Í kjölfar þessa var tekin ákvörðun um sjálfstæða rannsókn á viðskiptunum. Ólafur sagði því ljóst að málið hafi verið tekið til rannsóknar á fyrsta tímabilinu og grundvallarvinna þá unnin. Tilkynning skiptastjóra Milestone hafi komið á öðru tímabilinu. Rannsókn málsins hafi því farið á langmestan hátt fram á fyrstu tveimur tímabilunum.

Ekkert minnst á viðskiptin í bréfinu

Ólafur sagði að embætti sérstaks saksóknara hafi brostið vald til að rannsaka málið á þessum tímabilum. Á því fyrsta hafði hann aðeins heimild til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í tengslum við setningu neyðarlaganna og viðskiptin 2005 falli sannarlega ekki undir það. Og þrátt fyrir útvíkkun heimilda á öðru tímabilinu sé ekki um það að ræða að viðskiptin hafi fallið undir 1. mgr. 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara. Enginn þeirra aðila sem hafi verið til rannsóknar hafi átt hlut í fjármálafyrirtæki, en í ákvæðinu sé gerð krafa um að refsiverði verknaðurinn tengist fjármálafyrirtæki. Því falli viðskiptin fyrir utan valdheimildir sérstaks saksóknara á fyrstu tveimur tímabilunum.

Ríkissaksóknari gat tekið ákvörðun um að fela sérstökum saksóknara að rannsaka ákveðin mál sem féllu fyrir utan lög um embættið. Sérstakur sendi einmitt bréf til ríkissaksóknara á grundvelli þessa, vegna þess að kæra Fjármálaeftirlitsins til sérstaks laut að Sjóvá en ekki fjármálafyrirtæki. Ríkissaksóknari taldi eðlilegt að rannsóknin færi fram hjá sérstökum saksóknara.

Ólafur sagði það ekki koma þessu máli við því með bréfinu hafi ríkissaksóknari aðeins heimilað sérstökum saksóknara að rannsaka Sjóvá, enda bent á í bréfinu að það varði starfsemi tryggingafélagsins og að stærsti lánadrottinn Sjóvá hafi verið Glitnir. Rannsóknin hafi því lotið að meintum brotum innan Sjóvá. Hvergi sé minnst á viðskipti Ingunnar við bræður sína.

Átti ekki að rannsaka tilkynninguna

Ólafur sagði að rannsókn á þessum viðskiptum hefði átt að vera hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Það embætti hefði þurft að óska eftir dómsúrskurði um húsleitir og gagnaöflun sem sérstakur saksóknari þurfti ekki. Þannig hafi hallað á ákærðu í málinu. Þá hafi skiptastjóri Milestone ekki mátt senda tilkynningu til sérstaks saksóknara. Aðeins skiptastjórar fjármálafyrirtækja máttu senda tilkynningar um meint refsiverð brot til sérstaks saksóknara og Milestone var ekki fjármálafyrirtæki. Það hafi ekki verið fyrr en seinna sem tilkynningar sem þessar áttu að fara til sérstaks.

Hann sagði að samkvæmt skýru lagaákvæði átti sérstakur saksóknari ekki að rannsaka tilkynningar nema þær kæmu frá skiptastjórum fjármálafyrirtækja. Það sem sérstakur saksóknari hafi átt að gera var að endursenda tilkynninguna eða senda hana til ríkissaksóknara. „Málið er ónýtt og ber að vísa því frá dómi.“

Viðskiptin alltaf undir í rannsókninni

Arnþrúður féllst á það með Ólafi að löggjöf um sérstakan saksóknara skipti mestu máli. Upphaf málsins megi rekja til þess að 6. maí 2009 hafi Fjármálaeftirlitið sent sérstökum saksóknara tilkynningu vegna gruns um refsiverð brot framin í starfsemi Sjóvár. FME hafði þá unnið að athugun á Sjóvá og eigendum þess félags, þar á meðal Milestone og Wernerssonum.

Í minnispunktum með tilkynningunni hafi komið fram upplýsingar um hluta þeirra viðskipta sem ákært sé fyrir. Viðskiptin hafi því verið undir í rannsókn á málinu í heild sinni. Hún vísaði til þess að Milestone hafi verið í eigu þeirra systkina, Karls, Steingríms og Ingunnar, og félags í þeirra eigu. Milestonesamstæðan hafi átt stóran hlut í Glitni og Askar Capital. Karl hafi verið stjórnarformaður Aska Capital og í stjórn Glitnis, Guðmundur Ólason hafi einnig verið í stjórn Glitnis og Steingrímur í varastjórn.

Hún sagði að í ljósi þeirra tengsla og að Sjóvá varð gjaldþrota og íslenska ríkið neyddist til að stofna nýtt félag til að taka yfir tryggingareksturinn var ótvíræð heimild til að rannsaka allt sem þessum félögum tengdist. Rannsóknin hafi lotið að mönnum sem voru í stjórn fjármálafyrirtækja og höfðu fengið há lán hjá fjármálafyrirtækjum.

Í bréfi ríkissaksóknara hafi sú heimild verið staðfest. 

Ávallt haft fulla heimild til rannsóknar

Hvað tilkynningu skiptastjóra Milestone varðar sagði Arnþrúður að í henni hafi komið fram upplýsingar um meinta refsiverða háttsemi sem hafi þegar verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Hafi því verið tekin ákvörðun um að halda þeirri rannsókn áfram. Í kjölfar tilkynningarinnar, sem hafði ítarlegri upplýsingar um þau viðskipti sem ákært er fyrir, hafi viðskiptin verið tekin til sérstakrar rannsóknar undir öðru málanúmeri. 

Hún sagði að sérstakur saksóknari hafi frá upphafi haft fulla heimild til að rannsaka málið, samkvæmt lögum, og enn frekar með vísan til ákvörðunar ríkissaksóknara. Engar breytingar hafi verið gerðar á þeirri ákvörðun undir rannsókn málsins.

Þá sagði hún, að þrátt fyrir að dómari málsins kæmist að þeirri niðurstöðu að embættið hefði ekki haft heimild til rannsóknarinnar eigi það ekki að leiða til frávísunar. Verkaskipting á milli löggæsluembætta sé þannig að skipulögð að nauðsynleg þekking og reynsla sé á þeim stað sem málið er til rannsóknar. Það halli því ekki á sakborninga þótt rangt lögregluembættið hafi farið með rannsóknina, og hefði ekki getað verið til hagsbóta fyrir sakborninga að rannsókn hefði verið annars staðar enda hefði farið fram mjög vönduð lögreglurannsókn.

Að loknum málflutningsræðum var málið tekið til úrskurðar.

Steingrímur Wernersson
Steingrímur Wernersson Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert