Segja Sigmund fara með rangt mál

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Náttúruverndarsamtök Íslands segja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi farið með rangt mál í umræðum um hvalveiðar á Alþingi í dag. Í tilkynningu frá samtökunum segir að rangt sé að Bandaríkjamenn veiði fleiri hvali en aðrir.

„Hið rétta er að fjöldi veiddra á hvala er vel innan við 100 og eru veiddir í samræmi við stjórnun Alþjóðahvalveiðiráðsins á veiðum frumbyggja,“ segir í tilkynningunni. 

Í tilkynningunni segir jafnframt að forsætisráðherra hafði fullyrt að stór umhverfisverndarsamtök hefðu snúist gegn þorskveiðum á Norður-Atlantshafi og vildu jafnvel stöðva slíkar veiðar alveg. „Ekkert er hæft í þessu,“ segir í tilkynningunni.

Mikilvægi hvalveiða snýst ekki síst um að verja rétt Íslands til þess að nýta náttúruauðlindir sínar, sagði Sigmundur Davíð á Alþingi í dag. 

Þingmennirnir Björt Ólafsdóttir frá Bjartri framtíð og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir frá Samfylkingunni gerðu málið að umtalsefni og vildu fá viðbrögð frá forsætisráðherra meðal annars við yfirlýsingu Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, á dögunum um hvalveiðar Íslendinga og dómi Alþjóðadómstólsins á dögunum um að vísindaveiðar Japana á hval í Suðurhöfum ættu ekki rétt á sér.

Frétt mbl.is: Sigmundur: Ekkert nýtt hjá Obama

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert