Sigmundur: Ekkert nýtt hjá Obama

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægi hvalveiða snýst ekki síst um að verja rétt Íslands til þess að nýta náttúruauðlindir sínar. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á umræðum á Alþingi í dag. Þingmennirnir Björt Ólafsdóttir frá Bjartri framtíð og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir frá Samfylkingunni gerðu málið að umtalsefni og vildu fá viðbrögð frá forsætisráðherra meðal annars við yfirlýsingu Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, á dögunum um hvalveiðar Íslendinga og dómi Alþjóðadómstólsins á dögunum um að vísindaveiðar Japana á hval í Suðurhöfum ættu ekki rétt á sér.

„Sá réttur er gríðarlega mikils virði fyrir okkur þó það sé ekki hægt að setja á hann ákveðna tölu. Það er líka einhvers virði hlýtur að vera að menn standi á sínum prinsippum og láti ekki mestu hvalveiðiþjóð heims segja segja sér að við megum ekki veiða hval. Á meðan Bandaríkjamenn halda áfram sínum hvalveiðum þá ætla þeir að skikka Íslendinga til þess að hætta að veiða hval. Það er ekki hægt að láta undan slíkri ófyrirleitni.“

Þá sagði hann ekkert nýtt í yfirlýsingum Obama í þeim efnum heldur aðeins endurtekningu frá árinu 2011. Engar verulegar breytingar hafi orðið á samskiptum ríkjanna síðan. Hvað dóm Alþjóðadómstólsins varðaði gætu afleiðingar hans helst orðið þær að bæta markaðsstöðu íslenskra hvalaafurða í Japan.

Benti hann ennfremur á að til væru stór náttúruverndarsamtök sem beittu sér gegn þorskveiðum í Atlantshafi og vildu jafnvel að þær yrði bannaðar. Spurði hann hvort næst ætti að gefa eftir þorskveiðar þegar búið yrði að gefa eftir hvalveiðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert