Saksóknari íhugar áfrýjun

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mynd/Norden.org

Ákæruvaldið í Kaupmannahöfn hefur tekið sér frest til að fara yfir dóm sem féll í undirrétti Kaupmannahafnar í gær, en þá voru þrír Íslendingar og einn Pólverji dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi hver fyrir fíkniefnasmygl. Tveir hafa unað dómnum en hinir hafa einnig tekið sér áfrýjunarfrest.

Fresturinn er hálfur mánuður.

Saksóknarinn Anders Trøck-Nielsen segir í samtali við mbl.is að mennirnir hafi verið sakfelldir og dæmdir fyrir að hafa ætlað að smygla um 480 grömmum af kókaíni til Íslands. Fíkniefnið fannst í hótelherbergi í Kaupmannahöfn í nóvember 2012. 

Hann segir að dómstóllinn hafi verið sammála þeirri kröfu ákæruvaldsins að fjórmenningarnir hafi allir átt að hljóta sömu refsingu. Þeir hafi allir leikið mikilvæg hlutverk í þessum fíkniefnaviðskiptum, þrátt fyrir að þau hafi verið ólík. 

Hann segir að endanlegur dómur í fíkniefnamálum fari mjög eftir því magni sem menn séu sakfelldir fyrir að hafa haft undir höndum. Í þessu máli sé um að ræða 480 gr. og því hafi dómstóllinn metið það sem svo að tveggja og hálfs árs fangelsi væri viðunandi refsing. Að lokinni afplánun verður þeim svo bannað að koma aftur til Danmerkur. 

Trøck-Nielsen segir að það hafi verið ánægjulegt að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að enginn fjórmenninganna hafi leikið lítið hlutverk í þessum fíkniefnaviðskiptum. Þar af leiðandi hlaut enginn vægari refsingu heldur en höfuðpaurarnir.

Einn Íslendinganna var jafnframt ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum um 11 kíló af e-töflum, sem samsvarar um 40.000 töflum. Dómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að töflurnar væru í hans eigu, en þær fundust í íbúð í Kaupmannahöfn sem hann gisti í. 

Mennirnir voru handteknir í árslok 2012 í tengslum við rannsókn lögreglunnar í Kaupmannahöfn á samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Pólverjinn og einn Íslendanna voru handteknir í Danmörku. Í framhaldinu voru þrír Íslendingar framseldir til Danmerkur í október á síðasta ári. Einum þeirra var síðar sleppt en hinir tveir hlutu dóm í gær.

Mennirnir voru ákærðir fyrir að reyna smygla um 11,5 kílóum af e-töflum og hálfu kílói af kókaíni til Íslands. Danska lögreglan gerði húsleitir á nokkrum stöðum og lagði hún hald á 40.741 e-töflu, hálft kíló af kókaíni og 26.500 dali í reiðufé.

Fjórmenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi í tæpt eitt og hálft ár.

mbl.is