„Þetta er tímamótasamningur“

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og Gunnar …
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og Gunnar Björnsson, sem fer fyrir samninganefnd ríkisins mbl.is/Ómar

Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, segir að nýi kjarasamningur ríkisins, sem samninganefnd framhaldsskólakennara skrifaði undir síðdegis í dag, sé tímamótasamningur.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, sagði að um væri að ræða merkan áfanga í umbótum á öllu skólastarfi innan framhaldsskólanna.

„Þegar upp er staðið höfum við náð mjög merkum áfanga, að okkar mati, í umbótum á kjörum kennarastarfsins, sem er afar þýðingamikið fyrir allt samfélagið. Baráttan hefur snúist um almannahagsmuni, að auka virðingu fyrir kennarastarfinu - sem það á svo sannarlega skilið - og styrkja skólakerfið í landinu,“ sagði hún.

Hún sagði jafnframt að það væri skrítið að ljúka viðræðunum nú, eftir allan þennan tíma. Viðræðurnar hefðu fyrst hafist í desember en ekki „hrokkið í gang“ fyrr en í byrjun febrúar. „Eins og sáttasemjari segir höfum við setið endalaust yfir þessu.

Við lögðum upp með það í þessari samningsgerð okkar að það þyrfti að gera verulegar umbætur á launum í framhaldsskólum og það þyrftu að koma til verulega auknir fjármunir til framhaldsskólanna þannig að þeir gætu staðið undir hlutverki sínu,“ sagði hún.

Aðalheiður þakkaði jafnframt samninganefnd ríkisins fyrir gott, drengilegt og málefnalegt samstarf. „Þrátt fyrir að verkfall hafi skollið á, þá slitnaði aldrei upp úr viðræðunum. Og þó svo að það hafi nú stundum hægt á málunum, þá náðum við alltaf að koma þeim í réttan farveg.“

Samningurinn nær til októbermánaðar 2016 og felur í sér sex prósent launahækkun. Aðrar hækkanir eru háðar nýju vinnumati, en geta gert það að verkum að hækkunin nemi samtals 29 prósentum yfir samningstímann.

Eftir á að leggja samninginn undir atkvæði félagsmanna í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum.

Þá verður jafnframt sérstök atkvæðagreiðsla um vinnufyrirkomulag kennara, en halda þarf hana ekki síðar en í febrúar á næsta ári. Ef kennarar hafni því, þá mun samningurinn fella úr gildi. 

mbl.is/Ómar
Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður samninganefndar Félags framhaldsskólakennara
Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður samninganefndar Félags framhaldsskólakennara mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert