„Skattar munu lækka frekar“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti flokksráðsfund í Laugardalshöll í morgun.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, setti flokksráðsfund í Laugardalshöll í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Skattar munu lækka frekar,“ sagði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ávarpi sínu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni í morgun.

„Eins og maðurinn sagði: You ain't seen nothing yet,“ bætti Bjarni við.

Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði frá fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar lagt áherslu á að lækka skatta. „Og við erum þegar farin að ná árangri. Við lækkuðum skatta á tekjur fólks. Tekjuskatturinn hefur þegar lækkað sem nemur fimm milljörðum króna á ári,“ sagði hann.

Bjarni benti einnig á að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar hefði snúist um það að lækka skatta og draga úr skerðingum sem innleiddar höfðu verið og skertu kjör eldri borgara og öryrkja. Þeim fjármunum hefði verið vel varið.

Tryggingagjaldið hefði einnig verið lækkað og myndi lækka enn meira á næstu misserum. Ríkisstjórnin hefði einnig lækkað veiðigjöldin á þá sem ekki gátu risið undir þeim og ákveðið jafnframt að endurnýja ekki auðlegðarskatt fyrri ríkisstjórnar.

Hann sagði að það sem skildi á milli þessarar ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórnar í þessum efnum væru 25 milljarðar í skatta á ári. „Það er ágætis byrjun.“

Unnið er að endurskoðun á virðisaukaskattkerfinu, að sögn Bjarna. Hann sagði einnig að unnið væri að afnámi vörugjalda, sem væri löngu þarft verk. „Það er full ástæða til að ganga í það verk á meðan tækifærið er til staðar,“ sagði hann. Ætlunin væri að einfalda kerfið með hag fjölskyldunnar í huga.

Þá væri einnig ástæða til að setja tollamálin á dagskrá. „Ég hafna því ekki að á einstökum sviðum kunni að vera ofurtollar,“ sagði hann en benti enn fremur á mikilvægi þess að stjórnvöld hvettu aðrar þjóðir til að rífa niður sína tollamúra.

Flokksráðsfundur Sjálfsstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll í dag.
Flokksráðsfundur Sjálfsstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is