Ísland krepptur hnefi um posavél

Gjaldtaka við Geysi í Haukadal.
Gjaldtaka við Geysi í Haukadal. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs lagði leið sína á Geysissvæðið í dag, annan laugardaginn í röð. Hann mótmælir gjaldtökunni á svæðinu.

Síðasta laugardag var gjaldtöku við Geysi hætt áður en Ögmundur mætti á svæðið en svo var ekki háttað í dag. „Það var verið að krefjast aðgangseyris þegar við komum á staðinn. Við höfðum sama hátt á nú og fyrir viku, við sögðumst vera komin á svæðið til að standa á lagalegum rétti okkar til að skoða íslenska náttúruperlu gjaldfrjálst. Talsmaður landeiganda [innsk. blaðam. Garðar Eiríksson] ætlaði að afhenda mér miða sem einhver hafði keypt en ég afþakkaði og sagðist ekki hafa þörf fyrir slíkan miða,“ sagði Ögmundur í samtali við mbl.is.

Þetta gengur ekki, þessu verður að linna

Ögmundur gekk inn á svæðið með hópi fólks, bæði þeim sem komu með honum til að mótmæla og einnig ferðamönnum sem voru á svæðinu. „Það sýnir það að þegar fólk sendur á lagaréttinum vita aðilarnir upp á sig skömmina. Þetta gengur ekki, þessu verður að linna, þetta er lögleysa sem þjóðin er að horfa upp á,“ segir Ögmundur og mun hann einnig mæta klukkan hálf 2 næsta laugardag, verði gjaldtökunni ekki hætt.

Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis ehf, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Ögmundur hefði ekki viljað ræða við hann á svæðinu í dag. „Ég hafði svo margt að tala við aðra og ræddi ekki við hann öðru fremur. Hann var fyrst og fremst í þeim erindagjörðum að reyna að réttlæta gjörðir þeirra en ég hef ekki áhuga á að heyra slíkan rökstuðning við þessar aðstæður. Fyrst á hann að láta af þessu og þá eru menn tilbúnir að eiga við hann orðastað,“ sagði Ögmundur.

Segja áhrifanna farið að gæta

„Ferðamálafrömuðir sem voru þarna á svæðinu sögðu að þess væri farið að gæta að útlendingar afpöntuðu ferðir til landsins. Það er ekki vegna upphæðarinnar, 600 króna, heldur vegna þess að eitthvað breyttist með gjaldtökunni. Menn eru farnir að hafa á tilfinningunni að Ísland, sem var öllum var opið, sé orðið krepptur hnefi utan um posavél,“ segir Ögmundur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert