Njóta ekki sannmælis í réttarkerfinu

mbl.is/Eyþór Árnason

Fatlað fólk verður fyrir meira ofbeldi en aðrir og leitar sér síður aðstoðar, m.a. vegna hindrana í tjáskiptum en einnig vegna þess að réttarkerfið er þeim óaðgengilegt. Vitundarakning er þó að verða í þessu málaflokki, en enn er mikið verk óunnið að mati þeirra sem vinna að réttindamálum fatlaðs fólks.

Lögreglan á Selfossi hefur nú til rannsóknar mál þar sem starfsmaður á sumardvalarheimili fyrir fatlað fólk er sakaður um kynferðisbrot gegn fatlaðri konu á fertugsaldri. Ýmsir sérfræðingar hafa verið fengnir að málinu til að tryggja að réttinda konunnar sé gætt. 

Þar á meðal eru sérstakir réttindagæslumenn, á Suðurlandi þar sem meint brot var framið, og í heimabyggð konunnar. Staða réttindagæslumanna er nýtilkomin í kerfinu, en haustið 2012 tóku 8 slíkir til starfa víðsvegar um landið. Helstu verkefni þeirra er að aðstoða og leiðbeina fólki sem vegna fötlunar á erfitt með að gæta réttinda sinna sjálft.

Eiga erfitt með að segja frá

„Við erum framlenging fyrir hinn fatlaða í átt að réttlætinu,“ segir Sigrún Jensey Sigurðardóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Suðurlandi. Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, sem samþykkt voru í júní 2011, hafi fært með sér ákveðna byltingu í málaflokknum. 

Með þeim var t.d. innleidd tilkynningaskylda vakni grunur um að brotið sé á rétti fatlaðs einstaklings. „Allir þeir sem hafa grun um að verið sé að brjóta á réttin fatlaðs fólks, í sama hvaða formi það er, þeim ber að láta réttindagæslumann vita og honum ber að láta kanna málið. Þetta virkar ekki ósvipað barnaverndarlögunum, því þótt þetta sé fullorðið fólk þá er þetta svo rosalega viðkvæmur hópur,“ segir Sigrún Jensey.

„Þarna er komin leið fyrir fólk til þess að fá mál rannsökuð. Því fatlað fólk á oft erfitt með að segja frá. Margir hafa ekki getuna til að tjá sig, en nú geta þeir sem þekkja þá og verða varir við að þeim líði illa, látið vita og við skoðum hvort eitthvað hafi komið fyrir.“

Réttindagæslumennirnir vinna í samstarfi við lögregluyfirvöld og Sigrún Jensey segir að fyrirkomulagið sé að reynast vel. „Starfið er auðvitað ungt en þetta er allt að skila sér núna.“

Útsettari fyrir ofbeldi

Auk samstarfs við réttindagæslumenn kallaði lögreglan á Selfossi eftir aðstoð sérfræðings í klínískri taugasálfræði og réttargeðlæknis við skýrslutökur, í ljósi þess að meintur þolandi er andlega fatlaður.

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á Selfossi, segir að lögreglan sé meðvituð um að fatlaðir þolendur kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra veigri sér oft við að stíga fram af ótta við að verða ekki trúað. Lögreglan vilji hinsvegar taka þessi mál föstum tökum og vonist til að það verði til þess að fleiri treysti sér til að stíga fram og tilkynna um ofbeldi.

Þetta er til fyrirmyndar, en hefur því miður ekki verið gert í nógu miklum mæli við rannsókn á ofbeldismálum gegn fötluðum, að mati Helgu Baldvins- og Bjargardóttur, þroskaþjálfa og lögfræðings. „Það er að verða ákveðin vitundarvakning núna, en það þarf miklu meira að koma til.“

Helga hóf störf á Stígamótum í mars, í nýrri stöðu sérfræðings í málefnum fatlaðs fólks. Stígamót höfðu sótt um styrk fyrir slíku stöðugildi síðan 2007 og það hafðist loks nú, 2014.

„Stígamót taka nú þegar á móti mörgu fötluðu fólki, en stöðugildi mitt er til þess að ná til einstaklinga sem mæta meiri hindrunum, sem eru síður í stöðu til að gera sér grein fyrir ofbeldinu eða hafa jafnvel ekki orðaforða til að lýsa því sem hefur gerst. Þetta er hópur sem er mun útsettari fyrir ofbeldi en aðrir hópar í samfélaginu og það þarf að vera til þjónusta sem tekur mið af ólíkum þörfum fólks.“

Ofbeldinu viðhaldið með þöggun

Í rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum konum, sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið og kom út í skýrslu fyrir ári síðan, var niðurstaðan sú að konur sem rætt var við áttu sér langa sögu af undirokun og ofbeldi án þess að fá aðstoð og stuðning. Frásagnir kvennanna bentu til þess að ofbeldinu hafi verið viðhaldið með aðgerðarleysi og þöggun.

Þöggunin sem ríkti um það ofbeldi sem konurnar urðu fyrir var á vissan hátt viðhaldið af kerfislægum þáttum, svo sem skertu aðgengi kvennanna að félagslegri og réttarfarslegri aðstoð. Í skýrslunni er því lagt til að stuðlað verði að aukinni sérhæfingu innan kerfisins, til að mæta þörfum fatlaðs fólks sem verður fyrir ofbeldi.

Ósanngjarnar kröfur til þolenda

Sem dæmi um hindranir sem mæti fötluðu fólki nefnir Helga sönnunarkröfur þar sem ætlast sé til þess að fólk muni alla atburði og dagsetningar í réttri tímaröð. 

„Þetta er ósanngjarnt, líka gagnvart ófötluðu fólki, því þeir sem verða fyrir áfalli muna ekki alltaf hlutina í réttri röð. Það verður svo ennþá stærri hindrun ef þú kannt kannski ekki almennileg skil á dögunum en sérfræðingar hafa bent á að þótt fólk með þroskahömlun muni ekki tímasetningar þá geti það tengt við aðra atburði.“

Þannig geti fatlaður þolandi ofbeldis greint frá því að brotið hafi verið gegn honum á sama tíma og ákveðinn þáttur var í sjónvarpinu, eða tengt það við aðra fasta liði í daglegri rútínu.„Það þarf að passa að réttarkerfið taki mið af svona ólíkum aðferðum sem fólk notar til þess að muna og staðsetja sig í tíma og rúmi.“

Helga segir fatlað fólk þurfa að yfirstíga fordóma alls staðar í samfélaginu, þar á meðal í réttarkerfinu. Mörg þeirra þurfi hjálp við að sækja rétt sinn, en þá aðstoð geti verið erfitt að fá. „Það er enn langur vegur framundan til þess að fatlað fólk njóti sannmælis í réttarkerfinu.“

mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert