Sprautufíklarnir skipta hundruðum

Vinsæl lyf meðal fíkla. Sá sem selur slík lyf á …
Vinsæl lyf meðal fíkla. Sá sem selur slík lyf á svörtu þarf ekki að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni mbl.is/Golli

Engar opinberar tölur eru til um það frá Landspítalanum hversu margir sprautufíklar eru á Íslandi en það er upplifun þeirra sem koma að meðferðarúrræðum þeirra að þeir séu á bilinu 200-500. Það eru helst lyfseðilsskyld lyf sem eru notuð af fíklum hér enda óheyrilega dýrt að kaupa hörð fíkniefni á Íslandi eftir hrun. Efnahagskreppan hafði jú áhrif á ólöglega markaðinn, ekki bara þann löglega.

Á hverju ári deyja fleiri af of stórum skammti löglegra lyfja í Bandaríkjunum en af kókaín- og heróínneyslu samanlagt eða um 15 þúsund manns. Á Íslandi deyja árlega 14-15 úr ofskömmtun ávanabindandi lyfja sem er svipað hlutfall og í Bandaríkjunum.

10% af lyfjunum fara beint á svartan markað

Um 10% af þeim metýlfenídat lyfjum (rítalín er eitt þekktasta þeirra) sem ávísað er hér á landi fer beint í sölu á svörtum markaði, það er til fíkniefnaneytenda. Um fimm þúsund Íslendingar fá slík lyf á hverju ári.

Misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er ekkert sér íslenskt fyrirbæri en það sem er sérstakt við íslenska markaðinn er að sprautufíklar virðast að mestu halda sig við slík lyf. Þar getur skipt máli hversu dýr sterk eiturlyf eru á Íslandi og að þeir sem eru háðir slíkum lyfjum hafi einfaldlega flúið land í kjölfar hrunsins. Aftur á móti er það staðreynd að heróín þekkist ekki á Íslandi og hefur nánast aldrei þekkst hér. Eins virðist það ekki flækjast fyrir fíkniefnasmyglurum að flytja allskonar eiturlyf hingað til lands þrátt fyrir hátt verðlag og gjaldeyrishöft.

Ekki er haldið utan um hversu margir látast af völdum of stórra lyfjaskammta á Íslandi, heldur er slíkt einungis skoðað sérstaklega þegar um réttarmeinarannsókn er að ræða. Þrjú slík tilvik hafa komið upp á undanförnum dögum, það er krufning þriggja ungra karla leiddi í ljós að dánarorsökin var læknadóp. Þegar talað er um læknadóp í greininni er átt við lyfseðilsskyld lyf sem eru misnotuð af fíklum.

Í rannsókn sem Guðrún Dóra Bjarnadóttir, læknir á Landspítalanum, vinnur að kemur í ljós að flestir fíklar kjósa rítalín þegar þeir velja sér efni til þess að sprauta sig í æð með. 88% þeirra rúmlega eitt hundrað fíkla sem Guðrún Dóra ræddi við í tengslum við rannsóknina höfðu sprautað sig með rítalíni eða öðrum metýlfenídat lyfjum síðustu þrjátíu dagana áður en þeir fóru í meðferð. Enn fleiri höfðu tekið slík efni annaðhvort í gegnum munn eða nös eða 92%. Amfetamín kemur næst rítalíninu að vinsældum meðal sprautufíkla en 70% aðspurðra í rannsókninni sögðust hafa sprautað sig með amfetamíni og 43% með ópíötum (verkjalyfjum) síðustu 30 daga.

Rítalín er örvandi lyf í flokki metýlfenídat lyfja og er eitt þriggja lyfja í þeim flokki sem er misnotað hér. Til einföldunar er rítalín notað í greininni sem samheiti yfir þau lyf.

Fólk sem er háð læknadópi tekur rítalín á þrenns konar hátt: í sprautuformi, tekur inn töflur eða mylur þær og tekur í nös. Áhrifin ekki ósvipuð og blanda af amfetamíni og kókaíni.

Dagskammturinn kostar yfir 100 þúsund

Verð á rítalíni og öðrum sambærilegum efnum hefur hækkað mikið í heiminum undanfarin ár og sennilega mest á Íslandi þannig að það er gríðarlegur kostnaður sem fylgir fíkninni. Þeir sem sprauta sig með rítalíni og svipuðum efnum þurfa að sprauta sig mjög oft yfir sólarhringinn, yfirleitt 15-20 stinnum og fara um tvær rítalíntöflur í hvert skot. Miðað við götuverð á slíkum lyfjum er hægt að áætla að hvert skot kosti viðkomandi sjö þúsund krónur. Inni í þeirri tölu eru ekki önnur efni sem sprautufíklar nota með rítalíninu. Það er lesandans að ímynda sér hvernig viðkomandi fjármagnar slíka neyslu. En það er öruggt að sá sem annast sölu á þessum efnum þarf ekki að taka margar aukavaktir í vinnunni til þess að láta enda ná saman.

Svo virðist sem rítalín valdi mjög mikilli fíkn meðal þeirra sem misnota það í æð og tilfinningin þegar það berst inn í blóðrásina ólýsanleg, svo þeirra eigin orð séu notuð. En gleðin er skammvinn og stutt í að viðkomandi þarf að huga að næsta skammti. Amfetamínvíman varir mun lengur en á sama tíma þá er það ekki framleitt í löglegum eftirlitsskyldum lyfjaverksmiðjum þannig að fíkillinn veit aldrei hversu gott efnið er.

Kynjahlutfall íslenskra sprautufíkla er jafnara í rannsókn Guðrúnar Dóru en víðast hvar annars staðar þar sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar. Í flestum slíkum rannsóknum hafa tveir þriðju sprautufíklanna verið karlar á meðan svipað hlutfall kvenna og karla misnotar lyf með þessum hætti hér á landi samkvæmt úrtakinu í rannsókn Guðrúnar Dóru. Meðalaldur íslenskra sprautufíkla er 33 ár en taka þarf fram að þeir sem eru byrjaðir að misnota lyf með þessum hætti eru yfirleitt langt leiddir í fíkn sinni og ekki vitað hvort byrjað er að venja börn og unglinga á neyslu með þeim hætti í miklum mæli.

ADHD algengur sjúkdómur meðal Íslendinga

Mjög algengt er að fólk sem berst við fíkn er í grunninn með ADHD en hefur því miður oft ekki fengið rétta meðhöndlun á sínum yngri árum, leiðst út í fíkniefnaneyslu meðal annars vegna hvatvísi sem einkennir oft þá sem eru með ADHD.

Þessir einstaklingar geta hins vegar ekki fengið meðferð við ADHD í dag með rítalíni eða sambærilegum lyfjum þar sem þeir eru fíklar og hafa misnotað efnið.

Hlutfall þeirra sem hafa verið greindir með ADHD-sjúkdóminn hér á landi er mun hærra heldur en í nágrannalöndunum og virðist algengara að lyf séu notuð við sjúkdómnum hér en annars staðar á Norðurlöndunum.

Velta læknar og sálfræðingar því fyrir sér hvort það geti verið að sjúkdómurinn sé ofgreindur hér á landi en í einhverjum tilvikum hefur komið í ljós að þegar nánar er að gáð þá er viðkomandi ekki með ADHD líkt og fyrsta mat benti til.

Það má hins vegar ekki gleymast að flestir þeirra sem greindir eru með ADHD eru sannarlega með sjúkdóminn en ADHD þjáir jafnt börn sem fullorðna.

„ADHD er arfgeng taugaröskun, sem veldur mismikilli truflun á m.a. einbeitingu, virkni og skapstjórn. Meirihluti þeirra, sem þjást af þessum kvilla í bernsku og á unglingsárum, hefur einkenni áfram á fullorðinsárum, sem geta valdið verulegri truflun á öllum sviðum lífsins. Rannsóknir hafa endurtekið sýnt að fullorðnir með ADHD verða mikill baggi á heilbrigðiskerfinu, sérstaklega ef þeir fá ekki viðeigandi meðferð og er þá oftast um lyfjameðferð að ræða. Meðal þess sem oft þjáir fullorðna einstaklinga með ADHD, sé ástandið ekki meðhöndlað, eru geðlægðir, geðhvarfasjúkdómar, kvíðaraskanir og áfengis- og vímuefnaneysla. Fullorðnir einstaklingar með ómeðhöndlað ADHD njóta stundum hvorki hæfileika sinna né greindar í námi, starfi eða samskiptum við aðra. Viðeigandi lyfjameðferð getur bætt líðan þeirra á afgerandi hátt,“ segir í grein sem Grétar Sigurbergsson geðlæknir ritaði í Morgunblaðið árið 2011.

Græða tugi til hundruð þúsunda á hverri pakkningu

Læknar hafa orðið varir við það að námsmenn hafa verið að nota rítalín í próflestri en notkuninni fylgir aukin einbeiting og orka, minni matarlyst og minni svefnþörf. Það getur hvaða læknir sem er ávísað rítalíni en til þess að fá lyfið niðurgreitt þarf viðkomandi að vera með lyfjaskilríki frá Sjúkratryggingum Íslands. En eins og einn læknir orðaði það: „Fíklum og seljendum fíkniefna er nákvæmlega sama þó svo þeir þurfi að greiða aðeins hærra verð fyrir lyfið því hagnaðurinn af hverri pakkningu skiptir tugum þúsunda.“

Á sama tíma er hægt að hafa hundruð þúsunda upp úr krafsinu á sölu á einni pakkningu af sterkustu tegund Contalgini hér á landi. Svipað verð fæst fyrir Oxycodone. Það er því eftir ýmsu að slægjast.

Á netinu er síðan hægt að fá leiðbeiningar um hvernig eigi að lýsa sjúkdómseinkennum fyrir lækni. Erfitt er fyrir lækni að rengja viðkomandi enda ekki mælanlegur sjúkdómur. Hér á landi hafa komið upp dæmi þar sem foreldrar fá greiningu fyrir börn sín og hafa síðan selt lyfin. Eins að fullorðnir einstaklingar hafi verið greindir með ADHD og hafi fengið lyfinu framvísað og selt í kjölfarið. Þetta er hins vegar ekki algengt en þar sem þessi lyf eru ekki flutt hingað inn ólöglega þá byggist markaðurinn á lyfjaávísunum hér á landi.

Hinn 7. mars fjallaði embætti landlæknis um átta nýleg mál þar sem dauðsföll eru rakin til sterkra verkjalyfja. Í flestum tilvikum er um að ræða fíkniefnaneytendur sem leysa lyfin upp og sprauta sig með þeim.

Hafa yfirleitt fengið efnið hjá þriðja aðila

Magnús Jóhannsson, læknir sem starfar meðal annars við lyfjaeftirlit hjá landlæknisembættinu, segir að yfirleitt sé um að ræða misnotkun á fleiri en einu lyfi og þegar viðkomandi einstaklingi er flett upp í lyfjagáttinni koma nöfn þeirra ekki fyrir. Sem þýðir það eitt að þeir eru að fá þessi lyf einhvers staðar annars staðar. Undir þetta tekur Guðrún Dóra en að sögn viðmælenda hennar höfðu þeir í fæstum tilvikum fengið lyfjunum ávísað sjálfir heldur í gegnum þriðja aðila. Ef ekki er hægt að rekja lyfið beint til viðkomandi eru Magnús og starfsbræður hans komnir í blindgötu og komast ekki lengra með málið. Mjög sjaldgæft er að slík lyf séu flutt inn til landsins í þeim tilgangi að selja á svörtum markaði ef marka má það sem finnst við eftirlit hjá tollinum. Dæmi eru þó um það, til dæmis var spænskt rítalín í umferð í fyrra.

Töluvert er um innflutning á sterum og amfetamíni en ekki rítalíni og morfín-lyfjum eins og contalgini. Miðað við það virðast þau lyf sem fíklar misnota á Íslandi nánast ef ekki alfarið koma frá læknum hér á landi. „Enda miklu auðveldara að fara til læknis,“ líkt og einn viðmælenda orðaði það.

Hjá landlækni vinnur 3-6 manna teymi að slíku lyfjaeftirliti en ekkert formlegt samstarf er um slíkt eftirlit á breiðum grundvelli þrátt fyrir að ekki sé vanþörf á. Það er að landlæknir, Landspítalinn, lögregla, tollgæsla og meðferðarstofnanir vinni saman að slíku eftirliti og stuðli að eðlilegri lyfjanotkun hér á landi.

Þrátt fyrir að rítalín og önnur metýlfenídat lyf séu meira notuð hér heldur en víðast hvar annars staðar þá eru sterk verkjalyf af flokki ópíata, sem eru notuð við meðalsvæsnum og miklum verkjum, ekki meira notuð hér en í flestum nágrannalöndunum. Morfín er mest notað, þá tramadól en fentanýl og búprenorfín reka lestina. Meðal verkjastillandi lyfja sem fíklar nota eru morfín (contalgin) og tramadol (tramadol, tramól, tradolan, nobligan, zytram) lyf.

Tramadol hefur svipaða verkun og morfín en ekki er nema rúmt ár síðan það varð eftirritunarskylt hér á landi líkt og önnur hættuleg og ávanabindandi lyf. Það þýðir að áður gastu í raun gengið á milli lækna og fengið tilvísun á það lyf án nokkurra vandkvæða.

Var búinn að fá lyfin í 21 skipti án þess að það kæmist upp

Sem dæmi um slíkt má nefna konu sem fékk símtal frá apóteki þar sem henni var greint frá því að sérlyfið tramadól væri ekki til sem verið væri að leysa út fyrir hana og hvort það væri í lagi að hún fengi samheitalyf þess í stað. Konan var að vonum hissa þar sem hún hafði ekki notað viðkomandi verkjalyf í mörg ár. Í ljós kom að maðurinn sem var að svíkja lyfið út þekkti til hennar og vissi að hún væri mjög bakveik og hefði fengi lyf vegna verkjanna.

Hann hringdi í lækni og sagði að konan sín væri frá af verkjum og hvort hún gæti ekki fengið tramadól við verkjunum enda hefði það virkað best. Manninum tókst að útvega sér lyfið með þessum hætti í 21 skipti eða allt þar til hann var svo óheppinn að lyfið var ekki til og því hringt í konuna úr apótekinu.

Að sögn Magnúsar kom það í ljós fyrir tveimur eða þremur árum að í 134 dauðsföllum vegna ávanabindandi lyfja á árabilinu 2002-2011 kom tramadól, við sögu í 37 tilfellum.

„Þetta er morfínskylt verkjalyf sem sagt er lítið ávanabindandi og er talsvert ávísað en greinilegt að margir eru að misnota það með svona skelfilegum afleiðingum, segir í viðtali sem birtist í Læknablaðinu árið 2012. Í kjölfarið hófst barátta fyrir því að koma lyfinu á lista yfir eftirritunarskyld lyf og gekk það í gegn 1. janúar 2013.

Ef í ljós kemur að sjúklingar fá óvenjumikið framvísað af lyfjum er farið að skoða hvort lyfin komi frá mörgum læknum eða hvort það sé jafnvel einn læknir sem sjái viðkomandi alfarið fyrir lyfjum. Lyfjaeftirlitsteymið hjá landlækni fær slíkar ábendingar úr ýmsum áttum, svo sem frá læknum, aðstandendum, lögreglu, meðferðarstofnunum og apótekum. Hópurinn sendir læknum ábendingar þegar þurfa þykir.

Kom á óvart hversu mörg dauðsföll tengjast sterkum verkjalyfjum

Eftirlit með lyfjaávísunum og notkun sterkra verkjalyfja hefur aukist á undanförnum árum. Tilgangurinn er að sporna gegn misnotkun þeirra. Undanfarið hefur Landlæknisembættið kannað átta dauðsföll sem rakin eru til misnotkunar sterkra verkjalyfja. Flestir sem létust eru fíkniefnasjúklingar sem leystu efnin upp og sprautuðu sig.

„Það sem hefur kannski komið svolítið á óvart er hversu mörg dauðsföll tengjast sterkum verkjalyfjum, segir Magnús og bendir á að sífellt bætist við þekking á lyfjum og áhrifum þeirra en hér áður hafi menn ekki gert sér grein fyrir því hveru ávanabindandi tramadól væri. Talið var að það væri minna ávandabindandi en önnur ópíöt-lyf en síðar kom í ljós að svo væri ekki, heldur væri það mikið notað af fíklum,“ segir Magnús.

Magnús segir misjafnt hvort þeir sem létust af völdum verkjalyfja fengu þeim ávísað eða ekki. „Það er alveg jafn algengt að viðkomandi hafi ekki fengið þessu ávísað sjálfur. Það eru vísbendingar um að um einhvers konar misnotkun eða ofnotkun sé að ræða, að fólk sé að útvega sér þetta hjá vinum og kunningjum eða á svörtum markaði. Þetta er viðvarandi vandmál sem hefur alltaf fylgt þessum sterku verkjalyfjum.“

 Nauðsynlegt að samræma eftirlit og auka

Magnús segir nauðsynlegt að vera með einfalt eftirlitskerfi með ávísunum lyfja líkt og víða er komið í öðrum löndum. Til dæmis sé varað við því ef viðkomandi sjúklingur er þekktur fíkill eða sölumaður fíkniefna.

Mjög sjaldgæft er að læknar séu sviptir leyfi til þess að framvísa lyfjum enda fá slík mál sem koma til kasta eftirlitsins. Þó koma 1-2 slík tilfelli upp árlega. Þetta getur skipt sköpum hvað varðar framtíð viðkomandi læknis en sem dæmi má taka að geðlæknir sem ekki hefur heimild til þess að framvísa lyfjum á erfitt með að starfa. Flestir þeirra lækna sem hafa framvísað óeðlilega miklu magni af lyfjum eru eldri læknar sem oft telja sig vera að aðstoða viðkomandi einstakling sem eigi bágt. En slíkur greiði er bjarnargreiði því lyfin geta síðan gengið kaupum og sölum og kostað einhvern lífið.

Eins hafa komið upp tilvik þar sem læknum hefur verið hótað af fíklum ef þeir hafa neitað þeim um læknadóp. Til að mynda hafa þeir fengið viðvaranir eins og: ég veit í hvaða skóla dóttir þín er. Eins glíma einhverjir læknar við fíkn líkt og fólk úr öllum öðrum stéttum þjóðfélagsins.

Í viðtali við Magnús og fleiri úr eftirlitsteymi landlæknis við Læknablaðið kemur fram að áherslur þeirra við lyfjaeftirlitið hafi beinst að því að finna þá einstaklinga sem eru að fá ávanabindandi lyf hjá mörgum læknum en einnig að finna þá lækna sem telja verður að ávísi slíkum lyfjum í óhófi. „Við getum varað læknana við þessum sjúklingum og haft samband við þá sem við teljum að séu að ávísa í óhófi. Oftast er það gert í góðri trú læknisins og við getum þá hjálpað þeim að draga úr lyfjaávísunum til þessara einstaklinga.“

Þau benda á að misnotkun ávanabindandi lyfja og blekkingaleikur fíkla gagnvart læknum sé ekki séríslenskt fyrirbrigði. „Það hefur verið rannsakað í Svíþjóð að 1-2% þeirra sem fá ávísað ávanabindandi lyfjum eru að misnota þau og/eða selja öðrum.“

Hætta á HIV og lifrarbólgu C með skítugum sprautum

Í nýlegri grein sem eftirlitsteymið skrifar í Læknablaðið kemur fram að svefnlyf og róandi lyf eru mun meira notuð hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum.

Þessi mikla notkun svefn- og róandi lyfja á Íslandi á sér að minnsta kosti 35 ára sögu og er verulegt áhyggjuefni. Þessi lyf eru ekki og voru aldrei ætluð nema til skammtímanotkunar,“ segir í grein þeirra. Flest bendir til að svefnlyf og róandi lyf hafi verið ofnotuð og misnotuð á Íslandi áratugum saman og heildarnotkunin hér er margföld á við það sem þekkist í nálægum löndum.

Magnús segir nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því hversu hættuleg þessi misnotkun á rítalíni er. Þeir sem misnoti lyfið þurfi að sprauta sig oft yfir daginn. Það eykur sýkingarhættu vegna óhreinna sprautunála margfalt. Þessu fylgir síðan stóraukin tíðni HIV-smita og lifrarbólgu C.

Á síðustu 30 árum hafa 311 einstaklingar greinst með HIV-smit á Íslandi og 67 með alnæmi (AIDS).
Af 311 HIV-greindum eru 38% gagnkynhneigðir, 37% samkynhneigðir, 20% fíkniefnaneytendur.

Ellefu greindust með HIV-smit á Íslandi árið 2013 og einn með alnæmi. Eru það heldur færri en síðustu ár á undan þegar um tuttugu manns greindust á ári. Af þeim ellefu sem greindust með HIV eru fimm samkynhneigðir, fimm gagnkynhneigðir og einn fíkniefnaneytandi. Um er að ræða átta karla og þrjár konur á aldrinum frá 21 árs og upp í 55 ára. Þetta kemur fram í tölum frá embætti landlæknis.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir í samtali við Morgunblaðið í janúar að árið 2013 hafi verið svolítið öðruvísi en árin þar á undan. „Það eru færri fíklar og hlutfallslega er meira um samkynhneigða en áður, það eru t.d. tvö samkynhneigð pör. Af þessum ellefu eru fjórir útlendingar sem eru greindir með HIV hér á landi,“ segir Haraldur.

Á árunum 2010, 2011 og 2012 greindist fjöldi fíkniefnaneytenda með HIV-smit. Haraldur segir að tekist hafi að komast fyrir smitið í þeim hópi. „Þetta var hópsýking meðal fíkla sem tengdust dálítið náið, smitið var bundið við þann tiltekna hóp og virðist ekki hafa farið út fyrir hann.“

Rítalín og önnur svipuð lyf fást ekki öðruvísi en þeim sé ávísað af læknum. Í flestum tilvikum hafa þeir sem deyja úr of stórum skömmtum ekki fengið lyfin sjálfir hjá læknum heldur útvegað þau með öðrum hætti. Oftar en einu sinni hefur verið upplýst um að hér séu starfræktar amfetamínverksmiðjur. Magnús bendir á að rítalíni svipi að ýmsu leyti til amfetamíns og því megi velta fyrir sér hvenær byrjað verður að framleiða slík lyf í ólöglegum verksmiðjum hér.

 Börnum sem fá lyfið hér landi hefur fjölgað um 160% á milli áranna 2003 og 2012 og fullorðnum um 480%. Notkunin er tvöföld miðað við Danmörku og önnur lönd á hverja þúsund íbúa.

Í grein sem birtist í Læknablaðinu árið 2012 bendir lyfjaeftirlitsteymi Landlæknis á að hópurinn sem misnotar lyf sé ekki stór en þetta er samt sem áður vandamál sem taka þarf á.

Þau nefna ýmis dæmi um svik og pretti en segja ástæðuna oft einfaldlega vera mikið álag í heilsugæslunni þar sem sjálfvirkni í lyfjaafgreiðslu fer stundum úr hófi. „Óprúttnir einstaklingar hafa misnotað þjónustuna sem heilsugæslan reynir að veita. Við höfum dæmi um einstaklinga sem hafa verið búnir að koma sér upp rafrænum skömmtunarlyfseðlum til heils árs hjá þremur læknum. Þegar við höfðum samband við þessa lækna og náðum að stoppa þetta í samstarfi við þá, var viðkomandi einstaklingur strax búinn að koma sér upp lyfseðlum hjá tveimur öðrum læknum. Hann spilaði á þessa sjálfvirkni kerfisins af mikilli kunnáttu. Sjálfvirk endurnýjun lyfseðla inni á hjúkrunarheimilum hefur einnig verið of sjálfvirk, stundum heldur hún áfram mánuðum saman eftir að viðkomandi læknir er hættur. Við áttuðum okkur á þessari glufu fyrir rælni vegna þess að læknir sem hafði fengið takmarkaða lyfjaávísanaheimild á ákveðin lyf var enn að ávísa lyfjum á vistmenn hjúkrunarheimilis en þá var læknirinn tengdur sjálfvirkt  við skömmtunarkort sjúklings,“ segir Ólafur B. Einarsson, sérfræðingur hjá landlæknisembættinu

80% heróínfíkla byrjuðu á að misnota lyf

Í fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna berjast yfirvöld við vandann sem fylgir fíkninni í lyfseðilsskyld lyf. Benda sérfræðingar á að mörg verkjalyfjanna sem fólk misnotar séu í raun banvænni heldur en hluti þeirra eiturlyfja sem eru ólögleg. Þetta kemur meðal annars til af því að í dag eru fáanleg verkjalyf sem eru miklu sterkari en áður tíðkaðist og fólk verður háð notkun þeirra.

Um 80% bandarískra heróínfíkla segja að þeir hafi í fyrstu orðið háðir læknadópi en svo snúið sér að heróíninu vegna þess að það er mun ódýrara og auðveldara að útvega sér það heldur en læknadóp.
Sá lyfjaflokkur sem bandarískir sérfræðingar hafa mestar áhyggjur af eru verkjalyf en ásóknin er gríðarlega í slík lyf.

Ekkert heróín í himnaríki

Einn þeirra sem byrjaði í verkjalyfjunum var tónlistarmaðurinn Steve Rummler en árið 2005 fékk hann verkjalyf hjá lækni vegna bakverkja. Að sögn móður hans, Judy Rummler, jók læknirinn alltaf skammtinn jafnt og þétt þar sem Rummler kvartaði sáran en árið 2009 komst fjölskylda Rummlers að því að lyfin frá lækninum voru ekki einu lyfin sem hann tók inn heldur var hann orðinn háður þeim og útvegaði sér meira magn hjá þriðja aðila. Rummler fór í meðferð við lyfjafíkninni og allt virtist vera á réttri leið í hans lífi. En hann freistaðist til þess að taka inn verkjalyf vegna bakverks á ný og endaði í sama farinu. Þetta var hins vegar of kostnaðarsamt þannig að heróínið varð lausnin, hinn 1. júlí 2011 tók hann of stóran skammt og lést 43 ára að aldri.

Fjölskylda Elizabeth Turner stofnaði fyrir nokkru Facebook-síðuna No heroin in heaven, sem útleggst á íslensku: Það er ekkert heróin að fá í himnaríki. Elizabeth var að sögn móður hennar hið fullkomna bandaríska ungmenni, eða svo virtist vera á yfirborðinu. Það sem henni tókst að leyna fyrir foreldum sínum var að hún var háð eiturlyfjum frá sextán ára aldri.

Elizabeth lést af stórum skammti af heróíni þegar hún var 23 ára gömul en þá hafði hún verið án fíkniefna, að því er fjölskylda hennar taldi, í sex ár.

Þegar Elizabeth var unglingur var hún alltaf með háar einkunnir í skóla og braut aldrei reglur heimilisins varðandi útivistartíma. En fjölskyldan vissi ekki að um helgar raðaði hún í sig læknadópi, maríjúana og áfengi. „Hún faldi þetta mjög vel. Hún blekkti okkur öll,“ segir systir hennar, Jennifer Echolf í viðtali við Daily Mail.

Það var ekki fyrr en hún fór í háskólanám að einkunnir hennar fóru niður á við enda erfitt að stunda slíkt líferni án þess að eitthvað láti undan. Að loknu fyrsta ári í háskóla blasti napur veruleikinn við fjölskyldunni. Fyrirmyndardóttirin var háð OxyContyn sem er lyf í flokki ópíata, lyf sem gagnast þeim sem glíma við erfiða verki og aðra erfiða sjúkdóma. Næstu sex ár var háð hörð barátta á heimili Elizabeth, barátta við að halda henni frá dópi.

Að sögn fjölskyldunnar létust sextán vinir Elizabeth á þessum árum úr of stórum skammti eiturlyfja. Þrátt fyrir að baráttan væri erfið átti hún góðar stundir á milli.

Hinn 8. febrúar 2012 fór Elizabeth að heiman í starfsviðtal. Hún kom aldrei til baka. Elizabeth tók of stóran skammt af heróíni heima hjá vini sínum og þremur dögum síðar var hún úrskurðuð heiladauð. „Hún var hið fullkomna bandaríska barn en hún fór inn í heim sem hún kom aldrei úr,“ segir systir hennar. En saga hennar er ekkert einsdæmi en hér á landi er það læknadópið sem fíklar velja þegar kemur að næstu sprautu.
Daily Mail

Fyrir um viku voru tveir bandarískir læknar sviptir læknaleyfi vegna þess að sjúklingar þeirra létust af völdum læknadóps. Í öðru tilvikinu er læknirinn sakaður um að hafa ekki kynnt sér nægjanlega forsögu sjúklinga, að viðkomandi hafði misnotað lyfseðilsskyld lyf né heldur að rannsaka þvagsýni sjúklings nánar þrátt fyrir að fram kæmi að viðkomandi væri að taka verkjalyfin í allt of stórum skömmtum.

Þegar krufningaskýrslan er lesin hjá sjúklingum hans, tveimur konum, kemur ýmislegt kunnuglegt í ljós ef haft er í huga það sem fundist hefur við krufningu á fólki sem hefur látist hér á landi af lyfjakokteilum. Oxycodone, oxymorphone og alprazolam í blóði rúmlega tvítugrar konu sem hafði leitað til læknisins vegna verkja. Hin konan, á sextugsaldri var með eftirfarinn lyfjakokteil í blóðinu: morfín, metamfetamín, amfetamín, alprazolam, hydroxyalprazolam, diazepam, nordiazepam, oxazepam og temazepam. Tveimur mánuðum áður en þessi kona lést sást í þvagsýni hennar þegar hún kom í skoðun til læknisins að meira oxycodone var að finna í blóði hennar en hún hafði fengið framvísað og önnur lyf sem hún hafði ekki fengið hjá lækninum. Þrátt fyrir það gerði læknirinn ekkert í því og hélt áfram að skrifa upp á meira dóp fyrir hana.

OxyContin fyrir 340 milljarða króna

Það er synd að segja að misnotkun lyfja sé eitthvert einsdæmi á Íslandi. Í Bandaríkjunum eru árlega seld deyfandi verkjalyf fyrir 8,5 milljarð Bandaríkjadala, 965 milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum frá Centers for DiseaseControlandPrevention, sem sér um varnir gegn sjúkdómum og forvarnir í Bandaríkjunum, selst OxyContin fyrir meira en 3 milljarða Bandaríkjadala, 340 milljarða króna á hverju ári og hefur sala lyfsins aukist jafnt og þétt síðasta áratuginn.

Sprautufíklahópurinn er kannski ekki stór á Íslandi en það eru sárafá félagsleg úrræði fyrir þennan hóp. Það er óraunhæft að hægt verði að útrýma fíkniefnaneyslu á Íslandi en það er hægt að bæta stöðu þeirra með til dæmis aðgengi að ókeypis sprautunálum og húsnæði svo hægt sé að koma þeim af götunni. Það eru lítil sem engin úrræði fyrir fíkla sem einnig glíma við geðrof líkt og algengt er.

„Er það sem við viljum hafa á götunni, fólk í geðrofi undir áhrifum fíkniefna? Þetta er mjög veikt fólk sem okkur ber að aðstoða,“ segir Guðrún Dóra en Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er með einhver húsnæðisúrræði fyrir geðveika fíkla.

Móðir ungs manns sem glímir við geðræn vandamál og fíkn lýsir baráttu fjölskyldunnar við kerfið í viðtali við Rúnar Pálmason í Morgunblaðinu í febrúar.

„Um leið og hann varð 18 ára voru engin úrræði í boði. Þau hafi reynt að láta svipta hann sjálfræði, til að hægt yrði að leggja hann inn á fullorðinsgeðdeild, en því hafi verið hafnað.

Eftir að þau vísuðu honum af heimilinu hafi hann um tíma ekki haft neinn samastað og verið heimilislaus. Ef Neyðarskýlið í Reykjavík sé fullt eigi þeir sem eigi lögheimili í bæjarfélaginu forgang. Þar sem hann hafi átt lögheimili annars staðar hafi hann ekki komist þar að. Hann hafi þá sofið hjá vinum eða bara úti. Vitandi af barninu sínu köldu, veiku og svöngu og geta ekkert gert er erfiðara en orð fá lýst,“ segir móðirin,“ í viðtali við Morgunblaðið.

Vinsælir lyfjakokteilar meðal fíkla
Vinsælir lyfjakokteilar meðal fíkla mbl.is/Golli
Mikil hætta er á að smitast af lifrarbólgu C og …
Mikil hætta er á að smitast af lifrarbólgu C og HIV ef margir nota sömu sprautunálina AFP
AFP
OxyContin er mjög dýrt á svörtum markaði í Bandaríkjunum
OxyContin er mjög dýrt á svörtum markaði í Bandaríkjunum AFP
80% þeirra sem eru heróínfíklar urðu fyrst lyfjafíklar áður en …
80% þeirra sem eru heróínfíklar urðu fyrst lyfjafíklar áður en þeir leiddust út í heróín AFP
Skítugar sprautur geta haft skelfilegar afleiðingar í för með sér
Skítugar sprautur geta haft skelfilegar afleiðingar í för með sér AFP
Skaðaminnkunarverkefnið Frú Ragnheiður snýst m.a. um að útvega sprautufíklum hreinar …
Skaðaminnkunarverkefnið Frú Ragnheiður snýst m.a. um að útvega sprautufíklum hreinar sprautur og nálar. AFP
Rítalín er vinsælasta efnið meðal sprautufíkla á Íslandi
Rítalín er vinsælasta efnið meðal sprautufíkla á Íslandi mbl.is/Golli
Fernantyl er eitt þeirra lyfja sem fíklar misnota
Fernantyl er eitt þeirra lyfja sem fíklar misnota mbl.is/Golli
tramodol
tramodol mbl.is/Golli
Contalgin
Contalgin mbl.is/Golli
Oxycodone
Oxycodone mbl.is/Golli
Lyf sem eru vinsæl meðal fíkla
Lyf sem eru vinsæl meðal fíkla mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert