Uppsögnin úrskurðuð ólögmæt

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson

„Ég ætla að ráðfæra mig við lögfræðing Kennarasambandsins og athuga hvort og þá hvernig þeir kunni að koma að þessu. Síðan tek ég ákvörðun um það hvort við förum fram á bætur,“ segir Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri, í samtali við mbl.is en innanríkisráðuneytið hefur úrskurðað að ákvörðun Akureyrarbæjar að segja honum upp störfum sem kennara við Brekkuskóla á Akureyri árið 2012 hafi verið ólögmæt og sömuleiðis áminning sem hann fékk frá bænum. Tilefnið voru bloggskrif Snorra þar sem hann fordæmdi samkynhneigð. Kæru til lögreglu á hendur Snorra vegna skrifanna hafði áður verið vísað frá.

Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins að það sé mat þess að áminning sem Akureyrarbær hafi veitt Snorra í febrúar 2012 „hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum og sé af þeim orsökum ólögmæt. Geta hvorki tilvísanir Akureyrarkaupstaðar til annarra réttarheimilda né heldur til mannauðsstefnu sveitarfélagsins, aðalnámskrár eða siðareglna Kennarasambands Íslands, breytt þeirri niðurstöðu enda verður ekki séð að þar sé heldur að finna fullnægjandi grundvöll til að áminna grunnskólakennara af þeim ástæðum sem sveitarfélagið hefur vísað til.“

Síðar segir að þar sem áminning Akureyrarbæjar í garð Snorra hafi ekki verið ólögmæt að mati ráðuneytisins hafi hún ekki getað verið fullnægjandi grundvöllur uppsagnar hans í kjölfarið. „Af þeirri ástæðu sem og því að ekki verður séð að forsendur hafi verið til þess að öðru leyti að víkja SÓ frá, telst ákvörðun Akureyrarkaupstaðar, dags. 12. júlí 2012, um að segja honum upp störfum við Brekkuskóla ólögmæt.“

Kann að fara fram á milljónir í bætur

„Ég hef aldrei lent í svona áður þannig að ég er ekki þaulkunnugur skrefunum,“ segir Snorri ennfremur um mögulegt framhald málsins. Honum þyki hins vegar rétt að stjórnendur Akureyrarbæjar geri sér grein fyrir því að þeir geti átt von á skaðabótamáli þar sem krafist verði nokkurra milljóna króna í bætur.

Þá leggur hann áherslu á að málið snúist að hans mati ekki einungis um hann sem einstakling heldur miklu fremur um stöðu kennarans og skoðanafrelsi þeirra sem gegna þeim störfum. Hvort kennarar megi lýsa skoðunum sem stjórnendum sveitarfélaga eins og Akureyrarbæjar líkar ekki. „Það getur verið þetta núna og annað einhvern tímann síðar.“ Horfa verði á málið í víðara samhengi.

Spurður hvað hann hafi haft fyrir stafni frá því að honum var sagt upp störfum segist hann hafa verið í atvinnuleit. „Ég er búinn að vera að leita mér að vinnu og svo hef ég notað tímann til þess að hjálpa til í safnaðarstarfinu hér á Akureyri. Ég hef farið í heimsóknir til ýmissa safnaða hérna og reynt að gera gagn. Maður situr ekkert og gónir út í loftið og lætur sér leiðast. Allt sem viðkemur trúnni það gagnast mönnum vel.“

Frétt mbl.is: „Hvar endar þetta?“

Frétt mbl.is: Kæru á hendur Snorra vísað frá

Frétt mbl.is: Snorri sendur í leyfi

Frétt mbl.is: Erfitt að draga línuna

Frétt mbl.is: Líkir samkynhneigð við bankarán

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert