Gísli komst inn í Harvard

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson. mbl.is/Golli

Gísli Marteinn Baldursson mun hefja nám við Harvard háskóla í Bandaríkjunum í vetur, en um er að ræða ársnám sem tengist borgarfræðum. Gísli mun því fara í leyfi frá sjónvarpsstörfum á RÚV í haust. „Ég er svo glaður að ég gæti næstum grátið,“ segir Gísli í fréttabréfi sínu.

Fram kemur að hann hafi þráð lengi að komast í þetta nám, en öll fjölskyldan mun fara saman til Bandaríkjanna.

„Þetta er eins árs prógram í öllu því sem tengist borgum, uppbyggingu þeirra og þróun og er undir arkitekta- og hönnunarskólanum þeirra. Þetta er svokallað „fellowship“ fyrir fólk sem hefur reynslu af því að vinna í borgarmálum og endar ekki með neinni gráðu. Skólinn velur á hverju ári 10 manns inn í þetta nám, við setjum stundatöflurnar okkar saman sjálf í samráði við prófessorana og getum valið hvaða kúrsa sem við viljum í skólanum. Við erum líka hvött til að taka góðan tíma í að lesa og hugsa og ég ætla sjálfur að nota tímann til að skrifa um Reykjavík og spá í framtíð hennar. Þetta er náttúrulega sjúklega spennandi og ég hlakka mikið til,“ skrifar Gísli.

„Þannig að ég fer í leyfi frá sjónvarpinu í haust, en verð að vinna í spennandi þáttum þangað til (Sunnudagsmorgunn fer í sumarfrí eins og önnur vetrardagskrá Rúv). Svo sný ég aftur á þennan frábæra vinnustað næsta sumar. Þegar ég samdi við sjónvarpið í haust, var það hluti af ráðningunni að ef ég kæmist inn í þetta nám, fengi ég árs leyfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert