Vilja ná til unga fólksins og ómenntaðra starfsmanna

mbl.is/Rósa Braga

Í dag verður árvekniátakinu Framtíðarstarfið hleypt af stokkunum en markmiðið með verkefninu er að fræða fólk um leikskólakennarastarfið og námið að baki því. Að átakinu standa Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla og Efling stéttarfélag en tilurð þess má rekja til skýrslu um aðgerðir til eflingar leikskólastiginu, sem unnin var fyrir ráðuneytið 2012.

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda skulu að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við hvern leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara en til að mæta þeim kröfum vantar 1.300 leikskólakennara. Að óbreyttu er útlit fyrir að vöntunin verði enn meiri því umsóknum í leikskólakennaranám hefur fækkað og meðalaldur stéttarinnar fer hækkandi.

Arna H. Jónsdóttir, formaður námsbrautar um menntun ungra barna í leik- og grunnskóla hjá Háskóla Íslands, segir mörgu um að kenna en hún telur að viðhorfin í samfélaginu leiki stórt hlutverk. „Ég held að þetta starf og ýmis önnur, sem tengjast kennslu, uppeldi og umönnun, séu ekki nógu hátt skrifuð í samfélaginu, þótt við tölum kannski þannig á tyllidögum. Mér finnst að það þurfi að sýna það í verki alla daga að við viljum stuðla að góðri menntun okkar yngstu samfélagsþegna en mér finnst menntun þessarar stéttar oft vera töluð niður,“ segir hún.

Menntun lykilforsenda gæða

Arna segir leikskólakennarastarfið lifandi og skemmtilegt og það sé algengt að afstaða fólks til þess breytist þegar það hefur prófað að vinna í leikskóla. Hún segir leikskólakennara ganga í margvíslegar stöður og launaskalinn sé fjölbreytilegur en á sama tíma og rýr kjör takmarki áhuga á kennaranáminu virðist margir halda að laun kennara séu lélegri en þau raunverulega eru.

Átakið fer fram á Facebook og vefsíðunni www.framtidarstarfid.is en að auki verður auglýsingum komið fyrir á strætóskýlum. Markmiðið er að ná til ungs fólks og almennra starfsmanna leikskólanna en Arna segir langtímarannsóknir sýna að fagmenntað starfsfólk sé lykilforsenda gæða í leikskólastarfi.

Brýnt að leiðrétta launin

„Leikskólastigið sem skólastig hefur þróast mjög hratt, leikskólum hefur fjölgað og við höfum ekki náð, því miður, að framleiða miðað við þróunina,“ segir Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, um kennaraskortinn. Hann segir brýnt að leiðrétta kjör leikskólakennara.

„Það er okkar hlutverk, og samfélagsins alls, að búa þannig um hnútana að laun og starfskjör séu samkeppnishæf við aðra sérfræðinga. Við getum endalaust talað en nú þarf bara að gera og það stendur ekki á okkur, heldur þurfa sveitarfélögin að gera sér grein fyrir vandanum og bregðast við honum. Það þýðir ekki að segja: Við viljum metnað, við viljum hafa gott skólastig, við viljum vel menntaða einstaklinga, en stíga svo ekki nægilega stór skref til að leiðrétta laun og starfskjör,“ segir hann.

Haraldur segir samningaviðræður á góðu róli en þolinmæði leikskólakennara verði af skornum skammti ef á daginn kemur að sveitarfélögin eru ekki reiðubúin til að stíga fyrrnefnd skref.

Nánari upplýsingar um árveknisátakið Framtíðarstarfið má finna hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »