Óvíst hvort Vilborg heldur áfram

Vilborg Arna í grunnbúðunum með tind Everest í baksýn.
Vilborg Arna í grunnbúðunum með tind Everest í baksýn. Ljósmynd/Vilborg Arna

Leiðsögufyrirtækið Adventure Consultants hefur ákveðið að hætta við allar fjallgöngur á Everest-fjallið á þessu ári í kjölfar mannskæðasta snjóflóðs í sögu fjallsins. Vilborg Arna Gissurardóttir er einn af sex fjallgöngumönnum sem klífur nú fjallið á vegum fyrirtækisins. Hún segist í samtali við mbl.is nú meta sína stöðu. Hún segist gera ráð fyrir að það skýrist á næstu dögum hvort hún haldi áfram ferð sinni upp á tind fjallsins, þess síðasta í sjö tinda leiðangri hennar. Hún er nú stödd í grunnbúðunum við Everest. „Við misstum þrjá menn,“ segir Vilborg um fyrirtækið Adventure Consultants. „Fyrirtækið sér sér ekki fært að halda áfram. Við leiðangursmennirnir virðum þessa ákvörðun af heilum hug. Ég er að meta mína stöðu út frá þessu,“ segir Vilborg. 

Spurð hvort að það verði henni ekki erfitt að hætta við göngu á fjallið svarar hún: „Ég er að skoða stöðuna og melta þetta allt saman.“ 

Fyrirtækið tilkynnti ákvörðun sína á heimasíðu sinni í morgun. Þar segir að þrír af leiðsögumönnunum sextán sem fórust hafi komið úr hópi Adventure Consultants og þá hafi liðsmennirnir þekkt margra af hinum þrettán. Eftir miklar umræður og umhugsun hafi verið tekin sú ákvörðun að hætta við frekari fjallgöngur á Everest á þessu ári.

Allt í allt eru um fjörutíu manns í liði Adventure Consultans, þar á meðal fjallgöngumenn, leiðsögumenn og aðrir starfsmenn.

Lík þrettán leiðsögumanna hafa fundist í snjóflóðunum, en þriggja er enn saknað. Snjóflóðin fóru af stað þegar sjerparnir voru á leið með búnað fjallgöngumanna upp á fjallið. Fjallgöngumennirnir biðu í grunnbúðum á meðan. 

Ingólfur Ragnar Axelsson, sem var einnig staddur í grunnbúðum Everest-fjallsins, hefur ákveðið að halda för sinni upp á topp áfram. Hann segir hins vegar að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. 

„Móralinn er mjög slæmur víðast hvar. Mönnum er mikið niðri fyrir,“ sagði hann í myndskeiði sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær.

Allir þeir sem fórust voru nepalskir sjerpar. Kollegar þeirra fóru til höfuðborgarinnar, Katmandú, í gær til að minnast þeirra sem fórust í flóðunum. Sjerparnir hafa sett fram kröfulista um úrbætur á vinnuaðstæðum. Flestar snúast þær um öryggi þeirra á fjallinu en einnig að launum og vinnuaðstæðum almennt. Þeir hafa hótað því að hætta hópferðum á fjallið verði ekki gengið að kröfum þeirra.

Frétt mbl.is: Vonbrigði og sorg í grunnbúðunum

Frétt mbl.is: Hóta að hætta öllum ferðum á fjallið

Buddhabir RAI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert