Heyrðu fyrst af landvörðum í fréttum

Ferðamenn við Geysi
Ferðamenn við Geysi mbl.is/Golli

„Þetta var í fyrsta skipti sem við landeigendur heyrðum af þessu og höfum enga skýringar fengið,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður landeigenda við Geysi, um frétt Ríkisútvarpsins í kvöld þess efnis að fjórir landverðir muni hefja störf á Geysissvæðinu í byrjun næsta mánaðar.

Ríkisútvarpið greindi frá því að störf landvarðanna verði að stýra umferð, sjá um sorphirðu og taka þátt í endurbótum sem þurfa að fara fram á svæðinu, meðal annars að setja upp bráðabirgðapalla til að hlífa betur hverahrúðri og gróðri.

Garðar segir að þetta hljómi ansi líkt því sem landeigendur hafa talað um að væri nauðsynlegt á svæðinu. „En ríkið virðist ætla að greiða niður ferðaþjónustuna með því að kosta þetta með peningum úr vasa skattgreiðenda.“

Hann segir að fréttin hafi komið landeigendum verulega á óvart enda ekkert samráð haft við þá. „Þetta er þessi yfirgangssemi sem menn telja sig svo réttlæti í nafni ríkisins. Ég tel að ræða þurfi við okkur um mál sem þessi og við munum skoða þetta um helgina með lögmanni okkar.“

Hér má sjá hvernig eignarhaldið skiptist á Geysissvæðinu.
Hér má sjá hvernig eignarhaldið skiptist á Geysissvæðinu. Kort/Fjármálaráðuneytið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert