Kostnaður við Eldheima kominn upp í tæpan milljarð

Eldheimar
Eldheimar mbl.is/Guðm. Sv. Hermannsson

Verið er að leggja lokahönd á gosminjasafnið Eldheima í Vestmannaeyjum en ráðgert er að opna það fljótlega upp úr miðjum maí. Kristín Jóhannesdóttir, ferða- og menningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar og safnstjóri Eldheima, segir vinnuna við safnið ganga vel og ekkert ætti að koma í veg fyrir að það verði opnað eftir tæpan mánuð. „Það er nú unnið dag og nótt við að setja upp sýninguna og ganga frá öllum lausum endum. Sýningin er mjög metnaðarfull, mikil tækni sem fylgir henni og því að mörgu að hyggja,“ segir Kristín.

Gosið, jarðsagan og Surtsey

Auk þess að vera safn um Vestmannaeyjagosið 1973 og veröldina í Eyjum fram að gosi, í gosinu og eftir gos, verður sýning um jarðsögu eyjanna til húsa í Eldheimum og sýning um Surtsey og þróunina þar. Miðpunktur sýningarinnar er rústir hússins sem stóð við Gerðisbraut 10. Húsarústirnar eru fyrir miðri neðri hæð safnsins og geta gestir gengið í kringum þær. „Þá eru beggja vegna úti við safnhúsið rústir af öðrum húsum, sem fóru undir gosið, sem hægt verður að skoða. Svo með tíð og tíma verður hægt að fara af sýningunni okkar í ratleiki á svæðinu þar sem hús liggja undir. Þetta er einstök saga og mikið hægt að gera með hana,“ segir Kristín. „Það var löngu tímabært að við fengjum gosminjasafn og gaman að fara út í það með miklum metnaði. Þetta verður stórt og mikið aðdráttarafl fyrir ferðamannastaðinn Vestmannaeyjar.“

Búist er við fimmtán til sextán þúsund gestum á safnið fyrsta sýningaárið. „Svo er það dálítið undir samgöngum okkar komið hvað verður af gestum utan háannatímans. Við vonum að samgöngurnar verði þannig að hægt verði að selja inn á sýninguna allan ársins hring,“ segir Kristín. „Landeyjahöfn varð byltingin fyrir ferðaþjónustuna. Þetta er annað samfélag hér þegar hún er opin og við viljum að hún verði í lagi allan ársins hring.“

Kostar 902 milljónir

Framkvæmdir við Eldheima hófust sumarið 2012 og er kostnaðurinn kominn upp í 902 milljónir. „Við erum á áætlun og ætlum okkur ekki að fara upp fyrir þessa tölu. Það gengur allt mjög vel upp,“ segir Kristín. Sveitarfélagið kostar uppbygginguna að mestu leyti auk þess sem um þrjú hundruð milljónir króna koma frá ríkinu.

„Við lofum að þarna verður flottasta sýning sem menn hafa séð,“ segir Kristín að lokum.

Eldheimar í Vestmannaeyjum
Eldheimar í Vestmannaeyjum mbl.is/Guðmundur Sv. Hermannsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »