Tvímælalaust bankanum í hag

Elín Sigfúsdóttirí Í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Elín Sigfúsdóttirí Í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tvímælalaust var Landsbanka Íslands í hag að veita Ímon ehf., félagi í eigu Magnúsar Ármanns, lán til kaupa á hlut í bankanum. Þetta kom fram í máli Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns fyrirtækjasviðs, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Samið var um lánið haustið 2008 rétt áður en bankinn féll. Elín er ákærð af sérstökum saksóknara fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun vegna málsins en embættið telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til þess að láta líta út fyrir að eftirspurn væri eftir bréfum í bankanum. Elín vísaði til þess að hluturinn í Landsbanka Íslands hafi verið lagður að veði fyrir láninu, sem var upp á rúma 5 milljarða króna, sem þýddi að í raun fóru engir fjármunir út úr bankanum. Þá hefði viðbótartryggingar verið lagðar fram. Hún hafi metið það sem svo að Ímon væri traust fyrirtæki á þeim tíma.

Spurð af Arnþrúði Þórarinsdóttur saksóknara hvort ekki hafi verið ástæða til þess að fara sérstaklega varlega miðað við stöðuna á mörkuðum á þessum tíma svaraði Elín að alltaf væri ástæða til þess að fara varlega þegar peningar væru lánaðir út. Hún hafi einfaldlega talið að lánveitingin til Ímons hafi verið bankanum í hag. Hún sagðist ennfremur fyrir dómi hafa haft fulla trú á Landsbanka Íslands.

Spurð af verjanda sínum, Helgu Melkorku Óttarsdóttur hæstaréttarlögmanni, hvort hún hafi haft persónulega hagsmuni af lánveitingunni sagði hún svo ekki hafa verið. Hún hafi þannig ekki átt hlutabréf í Landsbanka Íslands. Hún ítrekaði ennfremur aðspurð að hún hafi talið lánveitinguna þjóna hagsmunum bankans: „Klárlega þjónaði þessi lánveiting hagsmunum bankans.“ Hún hafi hins vegar hvergi komið nálægt viðskiptunum með hlut í bankanum.

Frétt mbl.is: Hafði enga hagsmuni af málinu

Frétt mbl.is: Aðferðir saksóknara svakalegar

Frétt mbl.is: Segjast ákærð fyrir að fara að lögum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert