Vandi ríkissjóðs ekki útbólgin útgjaldahlið

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að vandi ríkissjóðs sé ekki útbólgin útgjaldahlið. Mikið hafi verið dregið saman á útgjaldahliðinni á undanförnum árum og í hlutfalli af landsframleiðslu séu frumgjöldin ekki mjög há í dag. 

Í umræðum á Alþingi í dag sagði hann að það væri önnur hlið á ríkisfjármálunum sem skipti verulega miklu máli. Það sneri að efnahagsreikningi ríkisins, skuldastöðunni og eignastöðunni. 

„Á tekjuhliðinni erum við að bíða eftir því að með hagvextinum taki tekjustofnarnir við sér og það er nú þegar að gerast og við munum njóta góðs af því á þessu ári,“ sagði hann.

En ef efnahagsreikningurinn og fjármagnsgjöldin væru hins vegar skoðuð kæmi í ljós að ríkið væri mjög skuldsett.

„En hvað er á bak við þær skuldir? Við erum með gríðarlega miklar eignir eins og til dæmis í fjármálafyrirtækjunum og við eigum að horfa til þess að létta þeim af okkur og greiða þannig niður viðkomandi skuldir. Ef okkur tekst vel til með afnám hafta þá munu vonandi líka opnast möguleikar til að greiða niður þau miklu lán sem hafa verið tekin og valda miklum vaxtakostnaði vegna gjaldeyrisvaraforðans.

Þetta eru risastórar tölur í öllu samhengi hlutanna og það er tiltekt í efnahagsreikningnum, sala ríkiseigna og uppgreiðsla skulda sem við eigum að vera að horfa á þegar við erum að ræða um ríkisfjármál í þessu stóra samhengi,“ sagði fjármálaráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert